• Heiðlóa

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Vetrarbúningur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • „Barmar sér"

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Heiðlóa – ungfugl að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Hausthópur, vetrarbúningur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Heiðlóa, sem jafnan er nefnd lóa, er einkennisfugl íslensks þurrlendis. Hún er meðalstór vaðfugl, töluvert minni en spói, allþéttvaxin og hálsstutt. Vængirnir eru fremur langir. Fullorðin lóa í sumarbúningi er svört að framan og neðan en gul- og dökkflikrótt að ofan. Á milli svarta og gulflikrótta litarins á bakinu er hvít rönd. Hún hverfur á haustin eins og svarti liturinn og lóan verður þá ljósleit að framan og á kviðnum. Ungfuglar eru svipaðir. Vængir eru hvítir að neðan. Kynin eru svipuð, karlfuglinn er litsterkari.

Lóan er hraðfleyg og hún fer einnig hratt yfir þegar hún hleypur um á jörðu niðri. Biðilsflug með hægum, djúpum vængjatökum og söng er einkennandi. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga lóunnar þykist hún vera vængbrotin til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Hún er félagslynd utan varptíma.

Þekktustu hljóð lóunnar eru söngurinn á varptímanum, „dírrin-dí“ eða „dýrðin-dýrðin“, sem hún syngur bæði sitjandi og á flugi.


Fæða og fæðuhættir:
Étur skordýr, t.d. bjöllur, áttfætlur, þangflugur, orma, snigla, skeldýr og eins ber á haustin. Hleypur ítrekað stutta spretti í ætisleit og grípur bráðina.


Fræðiheiti: Pluvialis apricaria

Kjörlendi og varpstöðvar

Lóa verpur einkum á þurrum stöðum, t.d. í móum, lyngheiðum og grónum hraunum, bæði á láglendi og hálendi. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum. Lóan er utan varptíma aðallega í fjörum, berjalandi og á túnum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Heiðlóan er farfugl. Að áliðnu sumri fara lóurnar að safnast í hópa og búa sig undir brottför til vetrarheimkynnanna í Vestur-Evrópu, aðallega á Írlandi, en einnig í Frakklandi, á Spáni, í Portúgal og Marokkó, þar sem þær dvelja við strendur og árósa. Lóan fer seint og kemur snemma, fyrstu lóurnar sjást venjulega í lok mars, þó aðalkomutíminn sé í apríl. Eitthvað af fuglum sést venjulega í fjörum fram í nóvember. Sjást hér stöku sinnum á veturna, sérstaklega á mildum vetrum. Rúmlega helmingur af öllum lóum í heimi verpa hér á landi, svo við berum mikla ábyrgð á stofninum. Lóan verpur einnig á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og í Rússlandi.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR