• Flórgoði

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Biðilsdans

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Flórgoði – ungfugl að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Flórgoði á hreiðri

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Ungi fær hornsíli að eta

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Flórgoði er eini goðinn sem verpur á Íslandi. Minnir á smávaxna önd en er þó líkari brúsum í háttum og útliti; auðþekktur á þríhyrndu höfði, mjóum hálsi sem hann teygir oft, og stuttu stéli. Í sumarbúningi virðist hann dökkur í fjarlægð, höfuðið er stórt og svartgljáandi með stórum gulum fjaðrabrúskum aftur frá augum sem minnka þegar líður á sumarið. Háls og síður eru rauðbrún, bak og afturháls svartleit og kviðurinn hvítur. Yfirvængir eru dökkir með hvítum speglum. Á veturna er hann dökkur að ofan en ljós að neðan, með svarta þríhyrnda kollhettu, dökkt bak og dökkkámugan afturháls og síður. Ungfugl er svipaður fullorðnum fugli í vetrarbúningi og kynin eru lík.

Flórgoði á erfitt með að hefja sig til flugs og flýgur sjaldan en þegar hann er kominn á loft á hann auðvelt með flug, fæturnir skaga aftur fyrir stélið og höfðinu er haldið lágt. Hann er mikill sundfugl og góður kafari en þungur til gangs. Sefdans flórgoðans í tilhugalífinu er mikið sjónarspil. Hann ber ungana gjarnan á bakinu og fæðir þá fyrstu vikurnar. Félagslyndur, en helgar sér óðal í vörpunum.


Fæða og fæðuhættir:
Á sumrin er aðalfæðan hornsíli, en einnig brunnklukkur, tjarnatítur, krabbadýr, mýlirfur og flugur. Á sjó er fæðan líklega mest smáfiskur og krabbadýr. Eta talsvert eigið fiður, það er talið hjálpa upp á meltinguna. Láta sig stundum síga í vatnið, án þess að taka dýfu.


Fræðiheiti: Podiceps auritus

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur við vötn og tjarnir með silungi, frá sjávarmáli upp í 600 m hæð. Hreiðrið er stór en grunn laut á vatnsbakka eða í litlum hólma og myndast vel troðin slóð milli hreiðurs og vatns. Dvelur á veturna við strendur og geldfugl er aðallega á sjó á sumrin.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Fórgoði er að mestu farfugl. Hann var áður algengur varpfugl á láglendi í flestum landshlutum nema á Vestfjörðum. Honum fækkaði mikið upp úr 1950, en góðu heilli er stofninn nú á uppleið aftur. Flórgoði er nú tíðastur í Skagafirði, Þingeyjarsýslum og á Héraði. Nærri helmingur stofnsins er í Mývatnssveit. Meirihlutinn hefur vetursetu í Norðvestur-Evrópu, nokkrir tugir halda sig við Suðvesturland og Suðausturland á veturna. Verpur í Skotlandi, Skandinavíu og síðan austur um Asíu og austanverða Norður-Ameríku.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR