HREFNA

Balaenoptera acutorostrata

Hrefnan er minnst allra skíðishvala, venjulega 8 til 9 m á lengd og vegur um 8 tonn. Hún er rennileg, þykkust framan til og mjókkar aftur. Stirtlan er hliðflöt, há en fremur þunn. Höfuðið mjókkar fram og er efri skoltur stuttur með hrygg eftir miðju. Blástursholur (nasir) eru aftast á skolthryggnum. Undir neðri skolti liggja 60 til 70 húðfellingar (rengi) langsum aftur undir miðjan kvið og hverfa skammt framan við nafla. Hornið er aftursveigt og situr aftarlega á baki. Bægslin eru tiltölulega löng, efri hluti þeirra er hvítur, en sá fremri dökkgrár eða svartur með hvítum þverrákum. Hrefnan er grásvört á baki og sporði, grá á hliðum og hvít á kvið.


Spila myndband

Hrefna Vetrarstöðvar hrefnunar eru taldar vera einhvers staðar í hafinu fyrir sunnan land. Í apríl kemur hrefnan að landinu í fæðuleit og dvelur við ströndina og inni á fjörðum fram í miðjan nóvember. Þá hverfur hún aftur til vetrarstöðvanna. Oft sést þó ein og ein hrefna við landið að vetrarlagi.

Í kjafti hennar eru 500 til 600 skíði, sem hanga í þéttum röðum niður úr efri skolti. Skíðin eru gulhvít á lit og allt að 20 cm löng. Dýrið tekur upp í sig mikið magn af sjó og þrýstir því út á milli skíðanna. Lítil fæðudýr festast í hárunum á skíðunum og verða eftir í munni hvalsins. Hrefnan étur meira af fiski en aðrir skíðishvalir og getur allt að helmingur fæðu hennar verið fiskmeti. Algengast er að hún taki síli og loðnu og lítilsháttar tekur hún af þorskfiskum. Hún étur þó einnig talsvert af smáum krabbadýrum, aðallega ljósátu og rækju

Hrefnuveiðar voru stundaðar víðs vegar við landið mestalla 20. öldina. Hrefnuveiðar í atvinnuskyni hófust á Vestfjörðum snemma á 20. öld. Til að byrja með voru fáar hrefnur veiddar en veiðin jókst smám saman eftir því sem leið á öldina og á árunum 1977 til 1985 voru veiddar um 200 hrefnur á ári að meðaltali. Eftir það hættu hrefnuveiðar eins og aðrar hvalveiðar hér við land.

Kálfur hrefnunnar er um 3 metrar á lengd og 200 kg á þyngd við burð. Kálfurinn vex hratt fyrstu árin. Við 8 til 10 ára aldur er hrefnan orðin um 7 m löng og vex fremur hægt eftir það. Elsta hrefna sem hefur verið aldursgreind hér við land var rúmlega 30 ára gömul.