LANGREYÐUR

Balaenoptera physalus

Langreyður er næststærst allra hvala, einungis steypireyður er stærri. Hún er næststærsta dýr jarðarinnar. Hún er fullvaxin 22 til 23 m á lengd og vegur þá 60 til 70 tonn. Hún er rennileg, með nokkuð stóran haus og mjókkar aftur. Munnvikin ná skammt aftur fyrir augu og undir neðri skolti eru reglulegar húðfellingar (rengi) sem liggja langsum aftur að nafla.

Bægslin eru fremur lítil, grá á lit og eru uppi á miðri síðu rétt aftan við augu. Hornið er aftarlega á baki langreyðarinnar. Langreyðurin er dökkgrá á baki og nær hvít á kvið. Hvíti liturinn nær fram eftir neðri skoltinum hægra megin en vinstra megin er skolturinn dökkur. Þegar langreyðurin kemur upp að yfirborði til að anda er blástur hennar áberandi, fremur mjór og stendur beint upp í loftið.


Spila myndband

Langreyður Á hverju vori halda langreyðarnar norður á Íslandsmið til fæðuöflunar og dveljast við landið fram í október. Þá er aftur haldið til vetrarstöðvanna sem taldar eru vera sunnar í Norður-Atlantshafi.

Í kjafti langreyðarinnar eru um 600 til 700 hornplötur, skíði, sem hanga niður úr efri skolti. Úr jöðrum skíðanna eru löng og stíf hár sem notuð eru við að sía fæðu úr sjónum. Dýrið tekur upp í sig mikið magn af sjó og þrýstir því út á milli skíðanna. Lítil fæðudýr festast í hárunum á skíðunum og verða eftir í munni hvalsins. Aðalfæða langreyðarinnar á miðunum hér við land eru svifkrabbadýr, einkum ljósáta. Langreyðurin étur einnig lítillega af uppsjávarfiski, loðnu og sílistegundum.

Á árunum 1948 til 1985 voru veiddar árlega rúmlega 200 langreyðar við Ísland.

Langreyðarkýrnar bera á vetrarstöðvunum sem ekki er vitað með vissu hvar eru. Eftir burð fylgir kálfurinn kúnni til fæðustöðvanna og er með henni í 6 til 7 mánuði og nærist á feitri og næringarríkri móðurmjólkinni. Á þessum tíma hafa kálfarnir vaxið úr um 1750 kg við burð í 10 til 15 tonn.

Hægt er að aldursgreina langreyði á fjölda bauga í vaxkenndum mergtöppum sem myndast í eyrum hvalsins. Elsta aldursgreinda langreyður sem hér hefur veiðst var 94 ára gömul.