SVARTBAKUR

Larus marinus

Svartbakurinn er stærsti íslenski máfurinn. Svartbakar eru 65–75 cm langir og um 2 kg að þyngd. Vænghaf er 1,5–1,6 m.

Fullorðnir svartbakar eru hvítir á höfuð, háls, bringu og kvið en bakið er svart. Nefið er kröftugt, hliðflatt og gult með rauðum bletti á neðri hluta. Fætur eru bleikir. Ungir máfar sem ekki hafa fengið fullorðinslit kallast grámáfar. Máfarnir eru sem heild fremur óvinsælir af mönnum, en þeir eru í raun fjölhæfir, glæsilegir fuglar. Svartbakurinn flýgur með ákveðnum virðuleika, hann á auðvelt með gang og sund en kafar ekki. Svartbakur kann vel við sig með öðrum máfum. Á síðustu árum hefur þeim fækkað hér við land af óþekktum ástæðum. Þeir eru staðfuglar hér að mestu leyti.


Spila myndband

Svartbakur Svartbakar verpa við strendur allra norrænna landa og allt suður til S-Bretlands. Hér eru þeir algengir við ströndina í öllum landshlutum og eru einnig við vötn inn til landsins.

Svartbakar eru alætur og miklir tækifærissinnar. Þeir éta þó mest ýmislegt fiskmeti en einnig ýmsan úrgang, hræ, egg, unga og jafnvel nýfædd lömb.

Fjöldi eggja: 3
Eggjaskurn: : fölbrún með dökkum flikrum
Stærð eggja: 7,5 cm að lengd og 5,5 cm í þvermál

Þeir verpa í smærri eða stærri byggðum í margskonar landi en þó síst í mýrlendi. Hreiðrin eru úr sinu og mosa. Eggin eru oftast þrjú og sitja foreldrarnir á þeim til skiptis. Ungarnir eru hreiðurfælnir, en halda til í nágrenni hreiðursins undir vökulu eftirliti foreldra sinna þangað til þeir verða fleygir.

Máfaegg voru og eru enn talsvert tínd til átu. Kjöt ungra máfa var einnig töluvert etið, en gömlu máfarnir þóttu seigir.

Svartbakar kallast líka veiðibjöllur.

Latneska nafnið maritimus tengir svartbakinn við mar þ.e. sjó.

Máfar, ekki síst svartbakar, skapa hættu við marga flugvelli.

Máfar skapa hættu með því að flytja sýkla milli sorphauga/skolpræsa og vatnsbóla.

Því var trúað að ef hátt heyrðist í veiðibjöllunum vissi það á góða veiði.

Því var trúað að ef þunguð kona borðaði máfakjöt yrði barnið þjófur.

Á þýsku kallast svartbakar mantelmöwe (möttul- eða kápumáfar).