HVELDÝR

Hydrozoa

Dýrin geta verið stök eða í sambúi en þá eru mörg dýr saman sem hafa um sig sameiginlegan hjúp. Oftast eru sjálf dýrin smá og þarf þá víðsjá til að greina einstök dýr. Utan um munnop dýranna er fjöldi fæðuanga sem mynda krans. Fæðuangarnir eru alsettir eiturnálum sem skjótast út þegar fæðudýr eða óvinir snerta angana.

Hjá sumum hveldýrum er verkaskipting milli dýranna í sambýlinu, sum dýrin sjá um fæðuöflun, önnur um varnir sambýlisins og enn önnur um æxlun.


Hveldýr eru algeng í fjörum þar sem þau ýmist sitja föst á steinum, þörungum eða skeljum annarra dýra. Einnig er algengt að hveldýrin sitji hvert á öðru.

Helstu fæðudýr hveldýranna eru sviflægar lirfur botndýra og smá svifkrabbadýr. Dæmi um dýr sem éta hveldýr eru bertálknar og sæköngulær.

Dýrin geta fjölgað sér með því að nýtt dýr vex út úr hlið móðurdýrsins og annaðhvort losnar frá því og lifir sjálfstætt eftir það eða heldur tengslunum meðan bæði lifa. Þannig myndast fyrsti vísirinn að sambúi sem verður stærra og stærra eftir því sem dýrunum fjölgar. Hveldýr geta einnig fjölgað sér við kynæxlun. Æxlunarsekkur myndast á dýrinu og úr honum losna litlar marglyttur sem lifa sjálfstæðu lífi í svifinu um tíma. Eftir nokkurn tíma í svifinu sest marglyttan aftur á botn, festir sig, myndbreytist, byrjar að skipta sér og nýtt sambú myndast.