LÚÐA

Hippoglossus hippoglossus

Lúða er flöt en þykk og fremur langvaxin. Hausinn er stór og kjaftur stór með litlum en beittum tönnum. Bakugginn byrjar við vinstra augað og nær aftur á stirtlu. Raufarugginn byrjar á móts við eyrugga og nær einnig aftur á stirtlu. Sporður er stór. Rákin er greinileg og liggur í sveig yfir eyrugganum.

Lúðan er stærst allra flatfiska, getur orðið 3 til 4 metrar á lengd og yfir 200 kg að þyngd. Hún er yfirleitt brún eða grábrún á hægri hlið sem snýr upp og hvít á þeirri vinstri.


Þeir sjómenn sem oft drógu lúður voru taldir kvenhollir í meira lagi.

Lúða Við Ísland er lúðan algeng allt í kringum land. Meira veiðist þó af henni við suður- og vesturströndina en annars staðar við landið. Lúðan lifir við botn á 50 til 2000 metra dýpi en gengur oft inn á grynningar á sumrin og veiðist þá allt upp á 10 metra dýpi.

Heimkynni lúðunnar eru í Norður-Atlantshafi. Hún lifir með ströndum Evrópu frá Biskaja flóa norður í Barentshaf norðan Noregs, einnig við Bretlandseyjar, Færeyjar, Ísland og Grænland. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir hún frá Þorskhöfða í Bandaríkjunum norður til Labrador í Kanada.

Lúða Lúðan lifir fyrst og fremst á ýmiss konar fiski eins og ýsu, löngu, karfa, þorski og steinbít. Smálúða étur minni fiska, t.d. sandsíli og kola, en einnig ýmis botnkrabbadýr.

Lúðan hrygnir á 300 til 1000 metra dýpi og fer hrygningin fram í febrúar. Eggin eru 3 til 4 mm í þvermál og fjöldamörg eða 3 til 4 milljónir í hverri hrygnu. Eftir hrygningu svífa þau um á 300 til 400 metra dýpi. Þau klekjast út 2 til 3 vikum eftir hrygningu og er lirfan um 7 mm við klak. Hún er í fyrstu langvaxin og glær en fær á sig lit og breytist eftir því sem hún þroskast. Lirfan verður að seiði.

Seiðið verður þunnvaxið, höfuðbeinin skekkjast og vinstra augað færist upp á ennið. Seiðið leggst að lokum út á hlið, tekur á sig lögun foreldranna og syndir eftir það með hægri hliðina upp. Skömmu síðar leitar það botns, þá orðið 3 til 5 cm langt. Á botni vex lúðan hratt og verður kynþroska 4 til 8 ára gömul og 5 til 10 kg á þyngd.

Lúðan hefur mörg nöfn eins og gjarnan er um góða matfiska. Hún er meðal annars nefnd flyðra, spraka og heilagfiski.

Við Breiðafjörð var lúðan nefnd eftir því hversu stór hún var.
Minnsta lúðan nefndist lok, síðan koma eftir stærð, sprek, flóki, stegla, stofna, merja, þá flakandi lúða, svo stórflyðra og stærst var alfiskiflyðra.
Á henni var sporðurinn ein alin (um 60 cm) á breidd án þess að úr honum væri teygt.