SANDKOLI

Limanda limanda

Sandkoli er fremur þunnur flatfiskur, oftast 25 til 35 cm langur og 5-600 g að þyngd. Hann liggur á hliðinni á botninum, snýr hægri hliðin upp og eru bæði augun á þeirri hlið. Snjáldur er stutt og kjaftur er lítill með litlar, hvassar tennur. Samfelldur bakuggi liggur frá haus aftur á spyrðustæðið. Einn nokkuð styttri raufaruggi liggur frá gotrauf aftur að sporði á móti bakugganum. Sporður er tiltölulega stór og bogadreginn að aftan. Kviðuggar eru smáir og langt fyrir framan eyruggana. Á rákinni er krappur bugur fyrir aftan haus.

Hreistrið er smátt og skarað. Á þeirri hlið sem snýr upp er það hrjúft en slétt það sem snýr niður. Liturinn er allbreytilegur eftir því á hvernig botni sandkolinn liggur. Liturinn á hliðinni sem snýr upp er oftast mógrár eða rauðbrúnn og oft með rauðleitum eða ljósgulum smáblettum með dökkri rönd. Hliðin sem snýr niður er hvít eða bláhvít.


Við Ísland er sandkoli allt í kringum land. Mest er þó af honum við suður- og vesturströndina. Hann lifir frá fjöruborði niður á 190 m dýpi. Mest er af honum grunnt eða á 20 til 80 m dýpi. Hann gengur þó dýpra á veturna og kemur aftur upp á grynningarnar á vorin.

Sandkoli lifir við strendur Evrópu, í austanverðu Norður-Atlantshafi.

Sandkoli Fæða sandkolans er afar fjölbreytt og skiptist nokkuð jafnt á milli fiska og botn- hryggleysingja. Ungur sandkoli lifir meira á hrygg- leysingjum, burstaormum, krabbadýrum og skeljum, en eldri koli mest á fiski eins og síli og loðnu. Talið er að sandkolinn éti talsvert af fiskúrgangi sem fellur til frá veiðiskipum þegar gert er að fiski.

Sandkoli hrygnir allt í kringum land en mest þó í hlýja sjónum við Suður- og Suðvesturland. Hann hrygnir á 20 til 40 m dýpi á vorin. Eggin eru lítil og er hrygnt við botn. Eftir frjóvgun berast þau upp í yfirborðslögin. Þegar lirfurnar klekjast út eru þær 2 til 3 mm. Þær vaxa og verða að seiðum sem eru ólík foreldrunum að því leyti að þau synda upp á rönd og augun eru hvort á sinni hlið. Þegar seiðin eru orðin 2 til 3 cm löng leita þau botns og leggjast á vinstri hliðina, höfuðbeinin afmyndast og vinstra augað færist upp á hægri hliðina sem snýr upp.

Sandkoli vex tiltölulega hratt fyrstu árin og verður kynþroska 2 til 3 ára og er þá orðinn um 15 cm langur. Sandkolar geta orðið að minnsta kosti 14 ára gamlir.