SKATA

Raja batis

Fullvaxin skata er 150 til 200 cm á lengd. Hún er flatvaxin með oddmjóa trjónu. Eyruggar eru ummyndaðir í vængi eða börð sem eru samvaxin haus og bol. Aftur úr bolnum gengur hali sem er svipaður að lengd og bolurinn. Kviðuggar liggja aftur úr kverkunum milli barðanna og halans. Hjá hængum eru kviðuggarnir ummyndaðir í getnaðarlim eða göndla. Aftast á hala eru tveir bakuggar.

Skatan er grá að ofan og hvít að neðan. Augun eru ofan á skötunni og einnig innstreymisop fyrir sjóinn sem berst til tálknanna. Kjaftur og tálkn eru hins vegar neðan á skötunni. Skatan er brjóskfiskur.


Skata Við Ísland lifir skatan allt í kringum land en er þó fremur sjaldséð fyrir norðan og austan land. Hún veiðist aðallega á 100 til 200 m dýpi.

Skata er botnfiskur og lifir við strendur Evrópu allt frá Miðjarðarhafi norður til Norður-Noregs og Hvítahafs.

Skata Meðan skatan er ung lifir hún aðallega á alls konar botndýrum en eftir því sem hún stækkar verða aðrir fiskar mikilvægari í fæðu hennar og étur hún t.d. þorsk, ýsu, lýsu, keilu og fleiri fiska.

Hængarnir frjóvga eggin inni í hrygnunum og hrygnan gýtur síðan eggjum í hylki sem eru kölluð pétursskip. Þar þroskast eggið og lirfan. Við klak eru seiðin um 21 cm.