ÝSA

Melanogrammus aeglefinus

Ýsan er þykkust rétt framan við miðjan bol og mjókkar til beggja enda. Hún hefur miðlungs stóran haus með fremur stór augu. Hún er fremur smámynnt og undirmynnt og er með stuttan skeggþráð neðan á hökunni. Á baki eru þrír bakuggar og gengur sá fremsti upp í odd. Raufaruggar eru tveir neðan á stirtlunni. Kvið- og eyruggar eru vel þroskaðir og eru kviðuggar framan við eyruggana.

Ýsan er dökkgrá eða gráblá á baki, silfurlituð á hliðum og hvít á kvið. Rákin er svört og áberandi og svartir blettir eru framan til á hliðum ýsunnar, ofan við eyruggana. Algengt er að fullvaxin ýsa sé 60 til 80 cm að lengd og 2 til 4 kg að þyngd og hún getur orðið 12 til 14 ára gömul.


Spila myndband
Veist þú hvað orðatiltækið að draga ýsur merkir?

Ýsa Ýsa lifir allt í kringum Ísland en er þó algengust við suður- og vesturströndina. Hún heldur sig aðallega á sand- og leirbotni og er algeng frá 20 metrum niður á 200 metra dýpi.

Ýsa lifir í Norður Atlantshafi. Við Evrópu nær útbreiðsla hennar frá Biskajaflóa í suðri allt norður til Svalbarða. Hún er einnig við norðausturströnd Bandaríkjanna og við Nýfundnaland og Nova Scotia í Kanada. Hún lifir einnig við Suður-Grænland og Færeyjar og í kringum Bretlandseyjar.

Ýsa Meðan ýsan er smá étur hún aðallega hryggleysingja á botni og eru rækja, marflær, slöngustjörnur og ýmsar tegundir af skeljum þá fyrirferðarmestar á matseðlinum. Hjá stærri ýsu er mestur hluti fæðunnar aðrir fiskar og er loðna algengasta bráðin ásamt sandsíli og síld. Stór ýsa étur þó einnig slöngustjörnur og burstaorma og krabbadýrin ljósátu, rækju og marflær þó í minni mæli sé.

Ýsa hrygnir á 50 til 200 m dýpi í hlýja sjónum við suður- og vesturströndina. Hrygningartíminn er í apríl og maí. Hver hrygna getur hrygnt meira en milljón hrognum í einu. Hrognin eru sviflæg og klekjast út á 12 til 14 dögum. Lirfan sem klekst úr hrogninu er um 4,5 mm að lengd og hún hefur næringarforða í kviðpoka sem endist henni fyrstu dagana eftir klak. Þegar kviðpokinn er uppurinn fer hún að éta og er fæðan þá aðallega lirfur smárra svifkrabbadýra. Eftir því sem ýsulirfan stækkar étur hún sífellt stærri dýr. Lirfan er í svifinu allt sumarið og vex hratt þann tíma.

Seinni hluta sumars, í júlí til ágúst, er ýsan komin með lögun foreldranna og er þá kölluð seiði. Seiðin eru þá orðin 4 til 5 cm á lengd og leita botns. Vegna strauma berast egg, lirfur og seiði réttsælis með ströndinni. Þau sem verða til við hrygningu fyrir sunnan land berast vestur og norður fyrir land þar sem þau leita botns og lifa næstu árin.

Stærsti hluti ýsuaflans er frystur en einnig er dálítið hert. Ýsa hefur í langan tíma verið einn algengasti matfiskur Íslendinga.