ÞORSKUR

Gadus morhua

Þorskurinn er gildastur framan við miðjan búk og mjókkar til beggja enda. Hann hefur fremur stórt höfuð. Hann er kjaftstór og undirmynntur og er með skeggþráð neðan á hökunni sem hann er talinn nota til að þreifa fyrir sér við fæðuval. Á baki eru þrír bakuggar. Kviðuggar eru framan við eyruggana. Raufaruggar, neðan á stirtlunni, eru tveir.

Þorskurinn er oftast gulur eða ljósbrúnn á lit, alsettur dekkri óreglulega löguðum blettum á baki og hliðum en er ljós eða hvítur á kvið. Hann getur breytt um lit og verður til dæmis brún- eða rauðleitur ef hann dvelur lengi innan um þara. Á hliðum þorsksins er ljós rák.

Algengt er að fullvaxinn þorskur sé um einn metri á lengd og elstu fiskar verða 13 til 14 ára gamlir.


Spila myndband
Það þykir aulalegt að vera eins og þorskur á þurru landi.

Þorskur Þorskur veiðist allt í kringum Ísland. Þorskurinn lifir mest nálægt botni og getur verið við leirbotn, sandbotn eða klapparbotn. Hann finnst allt frá fárra metra dýpi niður á um 600 m dýpi en er algengastur á 100 til 400 m dýpi.

Þorskurinn er algengur um allt Norður-Atlantshaf.

Þorskur Í byrjun nærist þorsklirfan á forða sem geymdur er í kviðpoka sem hangir neðan í lirfunni. Þegar kviðpokinn tæmist byjar lirfan að éta rauðátulirfur og önnur smá svifdýr. Eftir því sem lirfan stækkar verður bráðin stærri og étur hún þá einnig lirfur smærri fiska eins og loðnu.

Ungþorskur étur smávaxna hryggleysingja eins og rækju og ljósátu. Eftir því sem þorskurinn stækkar verður stærri hluti fæðunnar aðrir fiskar, sérstaklega loðna, karfi og sandsíli.

Þorskurinn hrygnir allt í kringum land en langmest við suðvestur ströndina. Hrygningin er þar í mars og apríl. Þegar farið er vestur fyrir land, norður og austur er hrygningin sífellt seinna á ferð. Fyrir austan land er hún ekki fyrr en seinni hluta maí og byrjun júní.

Við hrygninguna snýr hængurinn sér á hvolf, syndir upp undir hrygnuna og sprautar sviljum um leið og hrygnan hrygnir. Eggin frjóvgast í sjónum og berast síðan með straumum sem hluti af svifinu. Fóstrið þroskast í egginu og verður að lirfu sem klekst út nálægt yfirborði sjávar. Lirfan þroskast og dafnar í svifinu um sumarið og breytist í seiði áður en hún leitar botns í lok sumars og á haustin. Seiðin leita botns inni á fjörðum og á grunnum svæðum. Vegna strauma berast egg, lirfur og seiði réttsælis með ströndinni. Þau sem verða til við hrygningu fyrir sunnan land berast til dæmis vestur og norður fyrir land þar sem þau leita botns og lifa næstu árin.