ÞYKKVALÚRA

Microstomus kitt

Þykkvalúra er fremur þykkvaxinn flatfiskur, þ.e. kolategund, sem er 20 til 40 cm á lengd. Hún er sporöskjulaga og er breiddin um helmingur af lengd fisksins. Hún hefur lítinn haus og er með lítinn framstæðan kjaft með þykkum vörum. Hægra augað er lítið eitt fyrir framan það vinstra. Bakuggi, sem liggur meðfram jaðri kolans vinstra megin, nær frá auga aftur á sporð en raufaruggi, sem liggur eftir hægri jaðri kolans, er nokkuð styttri og byrjar aftan við gotraufina. Kviðuggar, sem eru skammt framan við raufaruggann, eru litlir eins og eyruggarnir. Sporður er bogadreginn fyrir endann. Roð er slétt og slímugt með smáu og sléttu hreistri. Rák er bein frá sporði fram að eyrugga en tekur þá lítinn sveig fram á höfuð.

Þykkvalúra er breytileg að lit en er oftast brún eða brúnflekkótt á efri hlið og hvít á neðri hlið.


Þykkvalúra Hér við land er hana að finna við alla ströndina. Algengust er hún í sjónum við Suður- og Vesturland en mun sjaldgæfari annars staðar, sérstaklega við Austurland. Þykkvalúra er algengust á 15 til 100 m dýpi en hefur veiðst allt niður á 250 m. Hún lifir aðallega á grjót- eða malarbotni.

Þykkvalúra lifir við strendur Evrópu frá Hvítahafi og Norður-Noregi, suður til Biskajaflóa við strendur Frakklands.

Þykkvalúra Þykkvalúra lifir aðallega á ýmsum smáum krabbadýrum, marflóm, þanglúsum og smáum kröbbum. Hún étur einnig burstaorma, slöngustjörnur og skeldýr eins og nökkva, olnbogaskeljar og smávaxna kuðunga. Ýmsir smáir fiskar eins og sandsíli og loðna hafa einnig fundist í maga þykkvalúrunnar.

Þykkvalúra hrygnir við suður- og vesturströnd landsins. Hún hrygnir á sumrin frá maí fram í ágúst. Eggin eru sviflæg og einnig lirfurnar eftir að þær klekjast út. Meðan þær eru í svifinu synda þær upp á rönd og augun eru sitt hvorum megin á höfðinu. Lirfurnar hafast við í svifinu í nokkra mánuði en á endanum þroskast þær í seiði og breyta verulega um útlit.

Seiðin taka að líkjast fullorðna fisknum meira og meira eftir því sem þau þroskast. Vinstra augað færist fyrst upp á höfuðið og síðan yfir á hægri hliðina og seiðið fer að synda með hægri hliðina upp. Um þetta leyti fer seiðið að leita botns og lifir eftir það á botninum.

Þykkvalúra hefur þá náttúru að þegar hún étur gefur hún frá sér hljóð sem heyrist sem smellir um langan veg og dregur aðrar þykkvalúrur að.