KUÐUNGAKRABBI

Pagurus bernhardus

Kuðungakrabbinn býr inni í yfirgefnum kuðungi lindýrs. Hann hefur um 2-4 cm langan skjöld sem stendur fram úr kuðungnum þegar krabbinn er á ferð. Afturbúkur krabbans sem er innan við skjöldinn er linur en þar hlífir kuðungurinn honum. Á frambúknum neðan við skjöldinn hefur hann tvenn fótapör og fremst eru tvær klær sem eru misstórar. Sú hægri er mun stærri og öflugri en sú vinstri. Aftan við fæturna eru tvö pör af stuttum örmum sem dýrið notar til að hanga fast í kuðungnum. Einnig hefur dýrið einn arm vinstra megin, aftast á afturbúknum, sem það notar í sama tilgangi. Fremst á skildinum ganga fram tvö augu á stilkum. Til hliðar við þau eru tveir langir fálmarar og tveir stuttir eru á milli augnanna.

Skjöldurinn og klærnar eru rauðleit eða gulbrún, flekkótt eða röndótt að ofan en hvít að neðan. Fremst á klónum eru tvær raðir af vörtum og rauð rönd á milli. Eins og aðrir krabbar þarf kuðungakrabbinn að skipta um skel þegar hann stækkar. Eftir að hann losnar úr gömlu skelinni blæs hann út og myndar um sig nýja skel sem er vel við vöxt. Einnig þarf kuðungakrabbinn að velja sér stærri og stærri kuðung til búsetu eftir því sem hann stækkar. Meðan krabbinn er lítill finnst hann í kuðungum eins og t.d. þangdoppum eða nákuðungum en stærsti kuðungakrabbinn lifir gjarnan í beitukóngskuðungi. Talið er að kuðungakrabbinn geti orðið a.m.k. þriggja ára gamall.


Spila myndband

Við Ísland er kuðungakrabba að finna allt í kringum land. Hann er algengur frá neðri mörkum fjörunnar niður á um 30 m dýpi en hefur veiðst á meira en 100 m dýpi.

Kuðungakrabbinn lifir í Norður-Atlantshafi. Hann lifir með ströndum Evrópu frá Norður-Noregi til Portúgal

Kuðungakrabbi lifir á ýmsum smádýrum sem hann ýmist veiðir á botninum eða grefur upp úr setinu. Hann lifir einnig á smáum svifdýrum sem hann síar úr sjónum.

Þegar kuðungakrabbinn verður fyrir styggð dregur hann sig inn í kuðunginn og lokar á eftir sér með hægri klónni sem er sú stærri. Ef maður reynir að draga hann út rifnar hann oftast í sundur. Þorskur og aðrir fiskar hafa lag á að ná krabbanum úr skelinni með því að vera nógu snöggir að kippa í hann.

Kuðungakrabbinn verður kynþroska strax á fyrsta ári og hrygnir eftir það einu sinni á ári. Eftir frjóvgun hrygnir kvendýrið inn í kuðunginn og þar þroskast eggin í um tvo mánuði áður en þau klekjast. Á vinstri hlið afturbúksins á kvendýrunum er röð af stuttum örmum sem notuð eru til að halda hrognunum eftir að þeim er hrygnt.

Lirfurnar sem skríða úr eggjunum fara upp undir yfirborð sjávar og halda sig í svifinu meðan þær taka út þroska. Eftir nokkrar vikur í setjast lirfurnar á botninn og líkjast þá fullorðnu dýrunum. Þær þurfa nú að hafa hraðan á og finna sér tóman kuðung af heppilegri stærð, sér til varnar.