MARHNÚTUR
Myoxocephalus scorpius
Marhnútur er 20 til 25 cm langur með stóran haus sem er flatur að framan. Á haus og tálknalokum eru margir hvassir broddar. Hann hefur stór augu, stóran kjaft og þykkar varir. Bolurinn er þykkastur rétt aftan við höfuð og mjókkar aftur. Marhnútur hefur tvo, fremur háa bakugga og raufarugga undir stirtlu sem er svipaður að stærð og aftari bakugginn. Eyruggar eru stórir og kviðuggar langir en mjóir. Sporður er allstór og bogadreginn að aftan.
Marhnútur er oftast brúnleitur og flekkóttur. Flekkir geta verið hvítir, gulir, rauðir, grænir eða bleikir og líkjast skorpulaga lífverum á botni. Hann fellur því saman við botninn og getur verið erfitt að koma auga á hann ef hann liggur kyrr. Oftast er hann ljósari á kvið en á baki og hliðum.
Hér er marhnútur algengur allt í kringum land. Hann er botnfiskur og syndir sjaldan upp frá botni. Hann er algengastur á 0 til 30 m dýpi en hefur veiðst allt niður á 250 m dýpi. Hann lifir aðallega á grjót- eða klapparbotni innan um þara en finnst einnig á sand- og leirbotni.
Marhnútur lifir í Norður-Atlantshafi frá Barentshafi í norðri, suður til Ermarsunds. Við austanverða Norður-Ameríku lifir hann frá Baffinslandi suður til New York í Bandaríkjunum.
Marhnútur hrygnir um miðjan vetur innan um þara á grunnsævi. Eftir að hængurinn hefur frjóvgað hrygnuna, fer hann út á meira dýpi og heldur sig þar fram á vorið. Við hrygningu límir hrygnan hrognin saman í allstóra kekki við steina eða þarafestur. Hún gætir hrognanna þar til þau klekjast. Hrognin eru appelsínugul. Eftir að lirfan klekst úr egginu fer hún upp undir yfirborð. Hún hefst við í svifinu og berst með straumum í nokkra mánuði. Seinni hluta sumars hefur lirfan þroskast í seiði og leitar botns. Marhnúturinn verður kynþroska á þriðja ár.
Marhnútur hefur lítið verið nýttur hér á landi þótt hann sé talinn hinn besti matfiskur sums staðar. Fyrrum munu Vopnfirðingar hafa veitt marhnút í Nýpslóni og hert til átu.