MARINKJARNI
Alaria esculenta
Marinkjarni er brúnþörungur með greinótta festusprota, stilk og aflangt blað sem situr á enda stilksins. Marinkjarni er um 2 til 4 metrar að lengd. Stilkurinn er fremur stuttur, oftast minni en fjórðungur af heildarlengd plöntunnar. Út úr hliðum stilksins vaxa aflangar borðalaga blöðkur, gróblöðkur, sem gróin myndast á. Blað marinkjarnans er dökkbrúnt eða grænleitt, alsett smágerðum hárskúfum sem sjást sem litlir dökkir dílar á blaðinu. Neðst er blaðið fleyglaga. Marinkjarni hefur greinilega miðtaug eftir endilöngu blaðinu sem er framhald af stilknum. Meðfram miðtauginni er þunnur, himnukenndur, bylgjóttur blaðfaldur.
Eftir að blaðið er hætt að vaxa um mitt sumar fara ytri hlutar þess að rifna upp frá blaðrönd skáhallt inn að miðtaug. Marinkjarninn hefur mjög hraðan vöxt og getur vaxið 30 til 40 cm á mánuði þegar vöxturinn er mestur á vorin.
Marinkjarni er fljótur að dreifa sér og er oftast meðal fyrstu landnema á nýjum botni eða botni þar sem annar gróður hefur hreinsast burt. Hann verður kynþroska ársgamall og getur orðið allt að 10 ára gamall.
Marinkjarni lifir í Norður-Atlantshafi frá Barentshafi og Svalbarða í norðri suður til Ermarsundsins. Hann er einnig við Grænland og á Austurströnd Kanada frá Baffinslandi suður til Nýfundnalands. Marinkjarni finnst einnig nyrst í Kyrrahafi.
Marinkjarni finnst allt í kringum Ísland og myndar samfellt belti efst í grunnsævinu þar sem er klappar- eða grjótbotn og neðst í klapparfjörum þar sem mikils brims gætir. Marinkjarni hefur fundist allt niður á 30 metra dýpi.
Marinkjarni er eina þarategundin sem vitað er að höfð hafi verið til matar á Íslandi. Hann var soðinn í mjólk og mjöl haft með. Fékkst þá þykkur grautur. Marinkjarni var einnig eftirsóttur sem fóður fyrir skepnur og þóttu þær þrífast vel af kjarnanum.