PURPURAHIMNA

Porphyra umbilicalis

Purpurahimna er himnukenndur rauðþörungur. Himnan er 5 til 15 cm í þvermál, óregluleg í lögun og er fest við klappir með lítilli festuflögu. Upp af festunni vex himnan beint, án stilks. Hún er óregluleg í lögun en himnufaldurinn vex bæði upp og niður fyrir festuna og virðist sem festan sé undir miðju blaðinu. Þó að himnan sé þunn er hún seig og erfitt er að rífa hana. Purpurahimna er oftast brún eða gulbrún á litinn, stundum er hún þó rauðbrún við festuna og það glampar á hana.

Hér við land vaxa nokkrar tegundir sem eru skyldar purpurahimnunni og líkjast henni. Erfitt er að greina þær í sundur nema þegar himnurnar eru kynþroska og þarf að nota til þess smásjá.


Purpurahimnan vex frá Norður-Noregi suður til Senegal í Vestur-Afríku og einnig vex hún í vestanverðu Miðjarðarhafi. Við austurströnd Norður-Ameríku nær útbreiðsla purpurahimnu norðan frá Hudsonflóa suður til Virginíu í Bandaríkjunum.

Hér við land lifir purpurahimna allt í kringum land. Hún vex í miðlungs eða mjög brimasömum klettafjörum og er helst að finna efst í fjörunni en getur þó einnig vaxið neðar í fjörunni og jafnvel neðan fjörunnar.

Margar tegundir skyldar purpurahimnunni eru notaðar til matar í heiminum. Í Austurlöndum fjær er ein þeirra meðal eftirsóttustu matartegunda. Hún er nefnd "nori" á japönsku og er dýr og eftirsótt matvara. Á japönskum veitingahúsum á Vesturlöndum er hún einnig höfð á borðum. Hún er oftast vafin utan um hrísgrjón og hráan fisk í litlar rúllur.

Heimildir eru um að purpurahimna hafi áður fyrr verið notuð til matar hér á landi. Í riti Jóns Guðmundssonar lærða, "Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur", sem skrifað var í byrjun 17. aldar, er hún nefnd brimsöl og segir frá því að hún hafi verið bökuð milli tveggja heitra steinhellna áður en hún var borðuð.