ÚTSELUR

Útselur er gildastur um miðjuna en mjókkar bæði fram og aftur. Hann hefur tvo framhreifa og tvo afturhreifa aftast á búk. Fimm tær eða fingur eru á hverjum hreifa. Á milli afturhreifanna er dindill. Útselurinn er grár á lit með dökkum flekkjum á baki og hliðum en ljósari á kvið. Hann er mun stærri en landselur og getur orðið um 3 m að lengd og vegið tæp 300 kg. Brimlarnir eru stærri en urturnar og er höfuðið einnig mun stærra á þeim. Elstu útselir verða yfir 40 ára gamlir.


Spila myndband
Selir eru liprir á sundi svo sem eftirfarandi málsháttur ber með sér:

Ekki þarf að kenna selnum að synda.

Útselurinn veiðir sér til matar í kafi. Aðalfæða hans er þorskur, síli, steinbítur marhnútur og hrognkelsi. Aðallega étur hann smáan fisk og er þorskurinn sem hann étur til dæmis 30 til 40 cm langur.

Útselur kæpir við Vestur- og Norðvesturland en einnig á söndunum suðvestan lands. Yfirleitt heldur hann sig á stöðum sem eru fyrir opnu hafi og þar sem lítið er um mannaferðir. Hann kæpir á haustin og fyrri hluta vetrar. Kæpingin fer fram ofan við fjöruna þar sem urtan gerir sér bæli og kæpir einum hvítum kóp sem er þakinn hvítum eða gulleitum fósturhárum, sem kallast snoð. Kóparnir liggja í bæli í þrjár til fjórar vikur áður en þeir fara í sjóinn. Þeir busla þó stundum í fjöruborðinu þegar þeir stálpast. Þeir fara fljótlega að missa snoðið og eru oftast orðnir steingráir um þriggja vikna gamlir.

Áður fyrr var útselur nýttur til matar víða við ströndina. Selurinn var þá rotaður uppi í skerjum. Auðvelt var að ná útselskópum á þann hátt og var feldurinn af þeim notaður í klæði.