MARFLÓ

Marflær eru krabbadýr og af þeim lifa margar tegundir í fjöru og á grunnsævi. Um fjöruna liggja þær í felum undir þangi eða steinum en þegar fellur að fara þær á sund í fæðuleit. Marflær eru liðskiptar, hafa um sig harða kítínskurn og eru flatar á hliðum. Algeng stærð á marflóm í fjörum er hálfur til tveir cm. Þær eru ýmist grænleitar, brúnleitar eða rauðleitar. Þær hafa umbreytta munnlimi á fremstu liðunum, á miðliðunum hafa þær langa og mjóa fætur, oftast 7 pör, og á öftustu liðunum enda fæturnir í sundblöðkum sem marflærnar nota við sundið. Sumar tegundir hafa sterklegar afturlappir sem þær nota við að stökkva og geta þær stokkið hátt og langt ef þær verða fyrir styggð.

Marflóin þanggeit (Caprella septentrionalis. Sjá seinni mynd.) er ólík öðrum marflóm að lögum. Hún er löng og mjó og getur orðið um þrír cm á lengd. Hún er rauð á lit og hangir oftast í þráðlaga þörungum allra neðst í fjörunni eða á grunnsævi og getur verið erfitt að koma auga á hana svo vel fellur hún að þörungunum.


Marflær lifa flestar á groti og leifum plantna og dýra í fjörunni en eiga einnig til að leggjast á hræ.

Þegar marflær æxlast má sjá þær hanga saman tvær og tvær og er stærra dýrið, karldýrið ofan á. Þannig hanga dýrin saman í nokkra daga eða jafnvel vikur þar til æxlun verður. Mökun á sér stað þegar kvendýrið skiptir um ham á æxlunartímanum. Kvendýrið hrygnir þá eggjum í poka á kvið og karldýrið frjóvgar þau þar. Eftir æxlun sleppir hann kvendýrinu en eggin þroskast og klekjast út á kvið kvendýrsins. Litlar marflær sem hafa sömu lögun og foreldrarnir synda þá frá kvendýrinu.