MARHÁLMUR

Zostera marina

Marhálmur er grastegund sem vex í sjó, er oftast 30 til 70 cm á lengd en getur orðið meira en einn metri. Ofan í botnleirnum vaxa jarðlægir stönglar og upp af þeim blaðþyrpingar með reglulegu millibili. Blöðin eru löng og bandlaga og bogadregin fyrir endann. Þau eru 2 til 4 mm á breidd og með einum til þremur æðastrengjum. Blöð marhálms eru dökkgræn á litinn en jarðlægu stönglarnir eru hvítir eða ljósgrænir. Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.

Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.


Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir margæsir og álftir. Hér á landi eru margæsirnar mjög háðar honum. Þær halda sig nær eingöngu á svæðum þar sem marhálm er að finna er þær stoppa vor og haust á leið til og frá varpstöðum í Grænlandi.

Marhálmur er algengur í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi. Við strendur Evrópu lifir hann frá Barentshafi suður til Gíbraltarsunds og inn í Miðjarðarhaf. Við austurströnd Norður-Ameríku vex hann norðan frá Baffinslandi til Suður-Karólína í Bandaríkjunum.

Marhálmur fjölgar sér fyrst og fremst með rótarskotum og plöntuhlutum sem losna frá plöntunni í vondum veðrum. Á sumrin blómgast marhálmur og fræ myndast í tveimur röðum í fræhulstri sem er innan á blöðunum og lítið ber á. Fræin eru langgárótt með trýni. Þegar þau eru fullþroskuð losna þau úr hulstrinu og setjast á botninn. Þau liggja á botninum þar til næsta vor og spíra þá ef aðstæður eru hentugar.

Marhálmur er ekki nytjaður nú á dögum en áður fyrr var hann hafður til ýmissa nota. Mest var hann notaður í dýnur og reiðing. En skömmu fyrir aldamótin 1900 var farið að nota hann í miklum mæli til að hitaeinangra hús. Mest var þá skorið af marhálmi á Álftanesi, sunnan Reykjavíkur. Hann var þurrkaður og lagður í veggi í húsum til einangrunar.

Um 1930 kom upp sjúkdómur í marhálmi í Norður-Atlantshafi sem eyddi nærri öllum marhálmi á svæðinu, meðal annars á Íslandi. Það tók langan tíma þar til hann jafnaði sig aftur og er talið að hann eigi enn eftir langt í land til að ná aftur fyrri útbreiðslu sinni. Margæsir lifa að stórum hluta á marhálmi og þegar útbreiðsla marhálmsins minnkaði, fækkaði margæsum verulega. Þeim hefur síðan fjölgað aftur, smám saman, samfara aukningu í marhálminum.