SKÚFÞANG

Fucus distichus

Skúfþang er blaðlaga brúnþörungur. Blöðin eru kvíslgreind og slétt, með fremur ógreinilegri miðtaug. Skúfþangið getur verið mjög breytilegt í útliti. Algengasta afbrigðið er 30 til 90 sm langt með 1 til 2 cm breiðum, sléttum blöðkum. Afbrigði sem vex í skjólsælum fjörum er breiðara og er með stórum aflöngum loftblöðrum sem liggja tvær og tvær saman, sín hvorum megin miðtaugarinnar. Annað afbrigði sem lifir í fjörupollum efst í fjörunni í fremur brimasömum fjörum er um 20 til 40 cm langt og hefur mjóar greinar, sem eru um og innan við ½ cm á breidd. Á klöppum í mjög brimasömum fjörum er enn eitt afbrigði skúfþangs sem hefur tiltölulega stóra og kröftuga festu, þykkan stilk og er lágvaxið.


Skúfþang er að finna í Norður-Atlantshafi og í Norður-Kyrrahafi. Við strendur Evrópu vex skúfþang frá Íshafinu suður til Bretlandseyja og við austurströnd Norður-Ameríku suður til Mainfylkis í Bandaríkjunum.

Við Ísland lifir skúfþang allt í kringum land. Það vex bæði í skjólsælum og brimasömum fjörum. Það vex um alla fjöruna, Efst má finna það í fjörupollum en annars er það algengast neðan til í fjörunni.

Skúfþang þolir vel skolpmengum og er gjarnan ríkjandi tegund í fjörum þar sem skolpmengunar gætir. Skúfþangið er þó alls ekki eingöngu að finna í slíkum fjörum.