SNÚÐORMUR

Spirorbis spp.

Snúðormar eru litlir burstaormar sem lifa inni í hringlaga kalkrörum. Rörin eru föst við steina, þörunga eða skeldýr og eru oftast 3 til 4 mm í þvermál. Snúningurinn á rörum snúðorma er alltaf sólarsinnis.

Dýrin sjálf liggja inni í rörinu alla ævi. Þau eru liðskipt með um 30 liði og krans af fæðuöngum fremst á höfðinu. Þar er líka loka sem dýrið notar til að loka fyrir endann á rörinu þegar það dregur sig alveg inn í rörið. Það fer eftir tegundum hvort kalkrörin eru slétt eða mynstru


Í fjörum og grunnsævi hér við land eru til nokkrar tegundir snúðorma. Hver þeirra heldur sig á sínu sérstaka undirlagi. Ein tegund er alltaf á þangi, önnur á steinum, sú þriðja á kóralþangi o.s.frv.

Snúðormar lifa á svifþörungum og lífrænum ögnum sem þeir grípa með greinóttum fæðuöngum, sem eru fremst á dýrinu og þau geta teygt út úr rörinu.

Snúðormar eru tvíkynja. Sama dýrið myndar því bæði egg og frjó. Ekki er þó algengt að egg frjóvgist af frjói úr sama dýrinu. Oftast losa dýrin frjó sem berst inn í kalkhúsið hjá nágrannadýri og frjóvgar þar egg. Eftir frjóvun þroskast eggin inni í röri móðurinnar og klekjast þar út. Þegar lirfurnar eru tilbúnar, losna þær út í sjóinn og dreifast með straumum í nokkrar klukkustundir áður en þær setjast aftur. Þær velja sér bústað nálægt öðrum snúðormum af sömu tegund. Strax eftir að þær setjast byrja þær að mynda utan um sig kalkrör og taka upp sömu lifnaðarhætti og foreldrarnir. Sami snúðormurinn getur æxlast oft á sama árinu og getur lifað í eitt til tvö ár.