ÞANGDOPPA

Þangdoppa lítill kuðungur sem er oftast 8 til 15 mm langur. Vindingarnir eru fimm til sex. Efri vindingar kuðungsins ná lítið eða ekkert upp fyrir neðsta vindinginn. Neðsti vindingurinn er oftast um eða yfir 90 % af hæð kuðungsins. Skelin er slétt. Munnopið er dropalaga og er skelin greinilega þykkari við munnopið en annars staðar. Lokan er hringlaga og brún á lit.

Oftast er þangdoppan einlit, dökkgrá eða brún, en liturinn getur hins vegar verið mjög breytilegur. Hún getur verið rauðleit, græn eða appelsínugul eða jafnvel verið skærgul eða röndótt.

Önnur tegund kuðunga, klettadoppa, sem einnig lifir í fjörum getur líkst þangdoppu fljótt á litið. Hún þekkist frá þangdoppunni á því að vindingarnir enda í trjónu. Klettadoppan lifir ofar í fjörunni en þangdoppan oftast ofan við þangið.


Hér við land hefur þangdoppan fundist allt í kringum land en hún er fremur sjaldgæf við Austurland.

Þangdoppan lifir í fjörunni, innan um þangið. Mest er um hana í neðri hluta fjörunnar. Hún heldur sig gjarnan í raka undir þanginu. Þangdoppur finnast bæði í brimasömum og skjólsælum klettafjörum.

Þangdoppa finnst á öllu svæðinu frá norður Noregi suður með ströndum Evrópu suður til Miðjarðarhafsins. Við austurströnd Norður Ameríku lifir hún við strendur Nýfundnalands og þaðan suður til New Jersey í Bandaríkjunum.

Þangdoppan lifir aðallega á smáum þörungum sem vaxa utan á þanginu og getur einnig étið þangið sjálft, sérstaklega ungar þangplöntur. Hún skrapar þörunganna af undirlaginu með svokallaðri skráptungu sem er alsett hörðum tönnum.

Þangdoppan verpir eggjum sem hún kemur fyrir í litlum gagnsæjum slímpúðum sem hún festir við þangið. Eggin klekjast út á fjórum til fimm vikum. Þegar ungarnir skríða úr eggjunum eru þeir eins í útliti og foreldrarnir þó þeir séu auðvitað örsmáir.