BERTÁLKNI

Nudibranchia

Bertálknar eru lindýr og því skyld kuðungum og samlokum. Ólíkt þeim hafa bertálknar enga skel. Allmargar tegundir bertálkna lifa hér við land og eru þeir á stærðarbilinu 1 til 15 cm.

Útlit þeirra er hins vegar nokkuð fjölbreytilegt þó að þeir hafi nokkur sameiginleg einkenni. Þeir eru tiltölulega flatvaxnir, aflangir eða sporöskjulaga og færa sig áfram á botni með stórum fæti sem er undir dýrinu öllu. Munnurinn er fremst á fætinum eða framan við hann. Kápa hylur dýrið að ofan og upp af henni ganga hnúðar, totur, angar eða jafnvel greinóttar hríslur sem oft eru skrautlegar á litinn og geta verið í öllum regnbogans litum, allt eftir því hvaða tegund á í hlut. Ofan á höfðinu er eitt eða fleiri pör af fálmurum. Augun eru oftast við rætur öftustu fálmaranna. Aftan til á baki dýranna er stundum krans af greinóttum tálknum í kringum endaþarmsopið.


Spila myndband

Bertálknar lifa í neðsta hluta fjörunnar og neðan fjörunnar allt niður á nokkur hundruð metra dýpi. Algengastir eru þeir á hörðum botni.

Bertálknar eru mjög sérhæfðir í fæðuvali, flestar tegundir lifa aðeins á einni eða fáum skyldum tegundum bráðar. Algengast er að bráðin sé hveldýr eða mosadýr, sumar tegundir lifa þó á svömpum og aðrar á möttuldýrum. Bertálknar hafa tennta skráptungu sem þeir nota til að skrapa bita úr bráðinni.

Í totum bertálknanna eru eiturkirtlar eða eiturnálar sem koma í veg fyrir að önnur rándýr leggi sér bertálkna til munns. Tegundir sem lifa á hveldýrum geta innbyrt eiturnálasekki sem eru í fæðuörmum hveldýranna og komið þeim fyrir í baktotunum, þar sem þeir verða til varnar bertálknunum fyrir rándýrum sem reyna að éta þá.

Bertálkni Bertálknar eru tvíkynja, sem það er kallað þegar bæði karlkynfæri og kvenkynfæri eru í sama dýrinu. Sjálfsfrjóvgun er þó ekki algeng heldur makast dýrin tvö og tvö. Hrognunum er verpt í slímborða sem lagður er í hringlaga mynstur á botninn og hefur hver tegund sitt mynstur. Þegar lirfurnar klekjast úr eggjunum verða þær strax sviflægar en dvelja stutt í svifinu. Þegar lirfurnar eru fullþroska setjast þær á botninn þar sem sérhæfða fæðu tegundarinnar er að finna. Lirfan fær nú útlit og tekur upp hætti foreldra sinna. Þeir bertálknar sem lifa lengst geta lifað í eitt ár en flestir lifa aðeins í nokkra mánuði.