BOGKRABBI

Carcinus maenas

Bogkrabbinn hefur allt að átta cm breiðan og sex cm langan skjöld. Skjöldurinn er bogadreginn að framan en tenntur með fimm tönnum hvorum megin, utan við augun. Tveir augnkrikar eru fremst fyrir miðri skel þar sem augun standa á stuttum stilkum. Á milli augnanna eru tveir stuttir fálmarar.

Fjögur pör af ganglimum, sem enda í broddi, eru á kvið og eru lengri en breidd skjaldarins. Ystu liðir á öftustu ganglimum eru flatir og hærðir. Framan við ganglimi eru tvær gripklær, nær jafnstórar. Halinn er flatur og gengur aftan undan skildinum og liggur fram, þétt undir kviðnum. Halinn á kvendýrinu er hringlaga en hjá karldýrinu er hann mjórri og endar í oddi. Skjöldur og útlimir bogkrabbans eru dökkgræn eða grænbrún, stundum með gulu eða jafnvel bláu ívafi. Að neðan er krabbinn hvítur.

Bogkrabbinn hefur eins og önnur krabbadýr um sig harða skel. Þegar hann vex kemur að því að skelin verður of lítil. Þá skríður hann úr gömlu skelinni og myndar um sig nýja sem er vel við vöxt. Þetta gerir hann nokkrum sinnum á ári fyrstu árin en þegar fer að draga úr vexti skiptir hann um skel einu sinni á ári.


Spila myndband

Við Ísland er bogkrabbi algengur við Suðvesturland en finnst ekki annars staðar. Hann lifir frá miðri fjöru niður á 60 m dýpi á miðlungsbrimasömum og skjólsælum stöðum. Hann finnst bæði á hörðum og mjúkum botni.

Bogkrabbinn lifir við strendur Evrópu frá Norður-Noregi suður til Gíbraltarsunds og einnig verður vart við hann í Máritaníu á Vesturströnd Afríku. Á síðustu öld dreifðist tegundin víða með skipum og lifir nú meðal annars við austur- og vesturströnd Norður-Ameríku og í Ástralíu.

Bogkrabbinn hefur mjög fjölbreyttan matseðil og étur fyrst og fremst smávaxin fjörudýr eins burstaorma, samlokur, kuðunga og krabba. Meðan bogkrabbinn er ungur lifir hann m.a. á hrúðurkörlum og smáum lindýrum.

Mökun fer fram þegar kvendýrin hafa skelskipti. Seinni hluta sumars verður karldýrið vart við að kvendýr er að fara í skelskipti, þá heldur hann utan um kvendýrið í nokkurn tíma eða þar til skelskiptin verða og mökun fer fram. Kvendýrið hrygnir appelsínugulum hrognum sem það festir undir skjöldinn.

Hrognin þroskast undir skildinum fram á næsta vor. Þá klekjast út lirfur sem fara upp undir yfirborð og hafast síðan við í svifinu í nokkrar vikur. Á meðan lirfurnar eru í svifinu eru þær gerólíkar fullorðnu dýrunum. Lirfurnar nærast á svifþörungum. Þær hafa skelskipti nokkrum sinnum og breyta útliti í hvert sinn. Þegar lirfurnar hafa tekið út sinn þroska í svifinu setjast þær á botninn og hafa þá fengið útlit fullorðnu dýranna þó að þær séu auðvitað mun minni.