HREISTURBAKUR

Polynoinae

Hreisturbakar eru burstaormar sem hafa hreisturplötur sem hylja bakið. Þeir eru oftast 3 til 7 cm á lengd og nokkuð flatvaxnir. Hreisturplöturnar skarast og liggja í tveimur röðum aftur eftir bakinu. Ýmist eru 12 eða 15 pör af hreisturplötum á dýrinu eftir því um hvaða tegund er að ræða. Hreisturplöturnar eru festar við bak dýrsins með stilk og er holrúm undir þeim. Tálkn hreisturbaksins eru í þessu holrúmi. Fram úr dýrunum eru sjö fálmarar. Með fram hliðunum standa burstar út undan hreisturplötunum. Hreistrið er gráleitt eða brúnleitt.


Hreisturbakar eru botndýr og finnast allt í kringum land. Þeir lifa neðarlega í fjörunni og finnast þar aðallega undir steinum. Neðan fjörunnar eru þeir einnig algengir innan um þara á hörðum botni.

Hreisturbakar eru rándýr sem lifa aðallega á öðrum minni burstaormum og smáum krabbadýrum eins og botnkrabbaflóm og marflóm. Þeir hafa kröftugan rana á höfði með sterklegum kjálkum fremst. Þegar þeir sjá bráð í færi skjóta þeir eldsnöggt fram rananum og grípa bráðina með kjálkunum.

Kynin eru aðskilin. Við æxlun frjóvgast eggin undir hreisturskjöldum kvendýrsins og er haldið þar þangað til þau klekjast. Þá berast lirfurnar upp að yfirborði, hafast við í svifinu um nokkurra vikna skeið og leita síðan botns. Þá hafa þær fengið útlit fullorðnu dýranna og taka upp lifnaðarhætti þeirra.