Skata og skötumóðir

Skötumóðir er sams konar óvættur að sínu leyti með skötum eins og selamóðir í selaflokki. Séra Jón Norðmann hefur þá sögu eftir móður sinni, en hún hafði hana eftir séra Jóni Þorlákssyni, þjóðskáldinu mikla, að einu sinni þegar hann var á sjó fyrir vestan með öðrum á báti kom þar skötumóðirin og lagði börðin beggja megin upp á borðstokkana og ætlaði svo að draga bátinn í kaf. Séra Jón greip þá stóra sleddu, sem lá í bátnum, og risti af henni börðin svo hún hafði sig á burt. Þegar skata er dregin úr sjó er það sumstaðar siður að skera af henni halann, skera hann svo aftur í þrennt og kasta einum partinum aftur fyrir bátinn, öðrum út á stjórnborða, og hinum þriðja út á bakborða.

(Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I. 1954. Jón Árnason safnaði.)