Villihundurinn þefaði og fann ilminn af lambasteikinni og sagði: „Ég ætla að fara að grennslast eftir þessu, síðan kem ég og segi ykkur frá því; ég held, að það boði eitthvað gott. Köttur kom þú með mér.“ „Nei pa!“ sagði kötturinn, „Ég er kötturinn, sem fer sínar eigin leiðir, og allir staðir eru mér jafnkærir. Ég kem ekki með þér.“ „Þá verðum við aldrei framar vinir,“ sagði hundurinn, og hann skokkaði af stað áleiðis til hellisins. En þegar hann var farinn spölkorn í burtu, sagði kötturinn við sjálfan sig: „Allir staðir eru mér jafnkærir. Hvers vegna ætti ég þá ekki að fara þangað og grennslast eftir þessu og halda síðan mína leið eins og mér sýnist?“ Og svo læddist hann ofur hægt, á eftir villihundinum og faldi sig þar sem hann gat heyrt allt sem fram fór.

Blákápa. 1994. Sögurnar völdu Guðný Ýr Jónsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir. (Kötturinn sem fór sínar eigin leiðir). Reykjavík, Námsgagnastofnun