Bói fór á berjamó
botnfyllti sinn gúmmískó.

Settist loks á þúfu þar
þreyttur bæði og svangur var.

      Í öngum sínum át hann því
      allt það sem var skónum í:

      Krækiberin köld og römm
      kóki og frönskum gera skömm

      og bláberin svo blíð og æt
      sem bráðna í munni hunangssæt

og aðalborin aðalber
sem ættu að heita fjallasmér

og þessi ljúfu lambaspörð
svo létt og þurr og sölt og hörð.

Þórarinn Eldjárn