Krafla
Krafla er dæmigerð megineldstöð, í rauninni askja sem er að miklu leyti fyllt yngri jarðlögum. Í jarðskorpunni undir Leirhnjúk er kvikuhólf á 2-4 km dýpi. Þar safnast fyrir kvika og er unnt að mæla kvikusöfnunina eftir því hve land lyftist mikið yfir kvikuhólfinu. Í umbrotum treðst kvikan eftir sprungum í jarðskorpunni, ýmist til suðurs eða norðurs, eða þá að hún berst upp á yfirborðið í eldgosum.
Öflugt jarðhitasvæði er í Kröflu og Námafjalli, suður af Kröflueldstöðinni. Kvikuinnskot kynda undir jarðvarmanum, sem hefur verið virkjaður til raforkuframleiðslu í Kröflustöð (60 mW). Jarðhitasvæðið við Námafjall er meðal vinsælustu ferðamannastaða norðanlands.
Kröflueldar, sem hófust 1975, voru í eðli sínu svipaðir hræringum sem urðu á sömu slóðum 1724-1729 og nefndust Mývatnseldar. Kröflueldar hófust með litlu hraungosi við Leirhnjúk þann 20. desember. Í kjölfarið fylgdi mikil hrina jarðskjálfta, með tilheyrandi sprungumyndunum og landsigi sem teygði sig norður í Öxarfjörð. Á næstu níu árum urðu 20 svipaðar en misstórar hrinur í eldstöðvakerfi Kröflu. Níu sinnum urðu eldgos í þessum hrinum, flest skammvinn sprungugos. Einnig tróðst mikið magn bergkviku inn í sprungusveima eldstöðvarinnar sem leiddi til þess að land gliðnaði alls um átta metra á svæðinu frá Hverfjalli norður í Öxarfjörð.
Í Kröflueldum gafst einstakt tækifæri til að rannsaka landrek um gliðnunarbelti. Má segja að þar hafi kostir Íslands sem stærsta þurrlenda hluta Mið-Atlantshafshryggjarins komið að góðum notum.