Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er eldkeila sem rís um 1.666 m yfir sjávarmál yfir Eyjafjöllum við suðurströnd Íslands. Á toppi fjallsins er hringlaga gígur, um 2,5 km í þvermál, og í allar áttir út frá honum ganga berghryggir sem trúlega hafa myndast við gos undir jökli. Jökulhettan á fjallinu er tæpir 78 ferkílómetrar og mest um 200 m þykk.

Eyjafjallajökull er í raun fyrir utan aðalgosbelti Íslands, sunnarlega í eystra gosbeltinu þar sem það er að þróast suður í átt til Vestmannaeyja. Fjallið er meðal elstu virku megineldstöðva landsins, talið allt að 800.000 ára gamalt. Sprungukerfi Eyjafjallajökuls er nærri fimm kílómetrar á breidd og um þrjátíu kílómetrar á lengd, og stefnir frá vestri til austurs, allt austur í Mýrdalsjökul. Þessi sprungustefna er óvenjuleg og er líklega tengd Suðurlandsbrotabeltinu (jarðskjálftabeltinu) sem nær yfir láglendið milli Hengils og Heklu og hefur A-V stefnu. Fjallið er gert úr hraunlögum sem myndast hafa á hlýskeiðum og móbergi frá jökulskeiðum ísaldar.

Gossaga Eyjafjallajökuls er ekki vel þekkt. Talið er að frá því að land byggðist hafi fyrst gosið árið 920 við svonefnd Sker, sem er um fjögurra km langur hryggur í jöklinum norðvestanverðum. Lítið gos varð svo í aðalgíg fjallsins árið 1612 eða 1613 sem getið er í Skarðsannál: „Sprakk fram Eyjafjallajökull austur allt í sjó; kom þar upp eldur; hann sást nær alstaðar fyrir norðan land.“ Allmikið þeytigos varð svo í toppgíg jökulsins og stóð það með nokkrum hléum frá 1821–1823. Gosinu fylgdi jökulhlaup undan Gígjökli sem barst yfir Markarfljótsaura og öskufall allt vestur á Reykjanesskaga. Athyglisvert er að þrátt fyrir að eldstöðvakerfi Eyjafjalla- og Mýrdalsjökuls séu ótengd þá hafa Kötlugos í Mýrdalsjökli fylgt hræringum í Eyjafjallajökli, a.m.k. í gosunum 1612 og 1821.

Um miðnætti þann 20. mars 2010 hófst eldgos á nærri kílómetra langri sprungu á Fimmvörðuhálsi, milli Eyjafjalla- og Mýrdalsjökuls. Gosið átti rætur í eldstöðvakerfi Eyjafjallajökuls og var tilkomumikið að sjá, þótt ekki væri það stórt. Því lauk 12. apríl, en seint að kvöldi þann 13. apríl hófst jarðskjálftahrina í toppgíg Eyjafjalla-jökuls og um nóttina hófst þar gos sem stóð yfir í nærri 40 daga með mikilli sprengivirkni. Gosmökkurinn náði í allt að níu km hæð og barst um tíma suðvestur til Evrópu þar sem hann olli verulegum truflunum á flugumferð og einnig hér á landi þegar frá leið. Öskufok og eðjuflóð ollu bændum líka búsifjum nærri fjallinu.
Hæð: 1666 m
Tegund: Eldkeila
Síðasta gos: 2010