Bárðarbunga

Bárðarbunga er megineldstöð í norðvestanverðum Vatnajökli. Fjallið rís hæst í um 1850 m yfir sjávarmáli og í því er askja um 700 m djúp og 80 km2 að stærð. Þykkt jökulsins í öskjunni er 850 m. Eldstöðvakerfi Bárðarbungu er nærri 190 km langt, og nær frá Dyngjufjöllum ytri, um Bárðarbungu og Hamarinn í Vatnajökli, þar sem er önnur megineldstöð á kerfinu. Þaðan liggur kerfið til suðvesturs, um Veiðivötn, í átt að Torfajökli. Sagt hefur verið að Bárðarbunga sé staðurinn þar sem eldhjarta Íslands slær, enda er eldstöðin nærri miðju heita reitsins undir landinu.

Bárðarbunga er ein af virkustu eldstöðvum landsins. Á sögulegum tíma er vitað um a.m.k. 30 eldgos innan eldstöðvakerfisins. Auk gosa undir jökli hafa orðið fimm stór sprungugos utan hans, þ.e. í Vatnaöldum um 870 og Veiðivötnum árið 1477 sem bæði ollu miklu öskufalli. Á 13. öld rann Frambruni, hraunflæmi í vestanverðu Ódáðahrauni norður um Bárðardal og árin 1862–1864 myndaðist Tröllahraun suðvestur af Hamrinum. Árið 2014 hófst mikið flæðigos í Holuhrauni, norðan Dyngjujökuls. Frá forsögulegum tíma eru líka gríðarmikil hraun ættuð úr Bárðarbungukerfinu, t.d. Trölladyngja og Þjórsárhraun sem er 8.600 ára gamalt og huldi stóran hluta Suðurlandsundirlendis.

Þann 16. ágúst 2014 hófust mikil umbrot í Bárðarbungu. Vísindamenn fylgdust með því á tækjum sínum þegar kvikugangur tók að brjóta sér leið í jarðskorpunni, frá Bárðarbungu og norður fyrir Dyngjujökul, alls um 45 km leið. Þar hófst lítið hraungos í svonefndu Holuhrauni 29. ágúst sem lognaðist útaf á nokkrum klukkustundum. Ummerki um smágos sáust líka á leið kvikugangsins undir jökli. Um klukkan 4 aðfaranótt 31. ágúst hófst svo annað og meira hraungos skammt norðan við fyrri eldstöðina. Á nærri sex mánuðum náði það að mynda um 85 km2 hraunfláka á Flæðum Jökulsár á Fjöllum. Þetta er mesta hraun sem runnið hefur á Íslandi síðan í Skaftáreldum 1783–1784. Talsverð gasmengun fylgdi þessum eldsumbrotum og fór magn brennisteinstvíoxíðs í andrúmslofti oft yfir heilsuverndarmörk. Gosinu lauk að morgni 27. febrúar 2015.

Á meðan á gosinu stóð seig botn Bárðarbunguöskjunnar jafnt og þétt og nemur heildarsigið nærri 65 metrum. Þetta sig samsvarar nokkurn veginn rúmmáli þeirra kviku sem myndar ganginn og hraunið, eða um 1,4 km3. Sigi öskjunnar fylgdi mikil og langvarandi jarðskjálftavirkni, svo önnur eins hrina hefur ekki áður mælst hér um slóðir. Einnig varð fjöldi skjálfta við kvikuganginn og eldstöðvarnar, auk nálægra svæða. Gosið er talið þriðja stærsta eldgos sem orðið hefur í heiminum síðan í Skaftáreldum. Þessi umbrot tengjast gliðnun jarðskorpunnar, líkt og gerðist í Kröflueldum árin 1975–1984. Þá urðu síendurtekin kvikuhlaup og eldgos á nærri heilum áratug. Hvort það verður reyndin nú er of snemmt að segja, en þegar þetta er skrifað í apríl 2015 hefur ekki dregið til stórtíðinda í Bárðarbungu.
Hæð: 2000 m
Tegund: Askja
Síðasta gos: 2014-215