Raggi litli átti kanínu sem hét Pálína en þeir sem þekktu hana best kölluðu hana alltaf Pálu. Ragga þótti ákaflega vænt um Pálu sína og ekki þótti henni minna vænt um hann. Hann gat trúað henni fyrir öllum áhyggjum sínum og leyndarmálum vegna þess að hún talaði aldrei af sér.

Pála kanína var grænmetisæta en hún var líka nagdýr og nagaði því eitt og annað í sundur. Búrið sitt lét hún þó í friði. Oftast var hún lokuð þar inni en þó kom fyrir að Raggi litli opnaði búrið og leyfði henni að leika sér fyrir utan. Þá gat hún hoppað og leikið sér að vild og það fannst henni gaman.

Pála lifði góðu lífi af grænmetinu sem henni var gefið og jurtunum sem hún nagaði þegar hún fékk að hlaupa um úti við. Á vorin, sumrin og haustin gat hún hámað í sig gras eða blöð af túnfíflum, sem voru í sérstöku uppáhaldi. Á veturna fékk hún kanínufóður sem henni þótti l??ka ósköp gott en hún saknaði þó fersku grasanna og grænmetisins. Kæmist hún í slíkar kræsingar í skammdeginu leit hún ekki við kanínufóðrinu og var þá líkust óþekkum krakka sem vill ekki borða matinn á diskinum sínum o.s.frv.

Raggi litli og Pála kanína. Haraldur S. Magnússon, Iðunn, Reykjavík, 1996.