„Vissuð þið,“ sagði gamall maður, „að jólasveinninn spurði hvort hann gæti fengið lánuð tvö fallegustu hreindýrin okkar. Í nótt kemur hann og spennir þau fyrir sleðann sem hann notar til að gefa öllum börnum í heiminum gjafir. Sem þökk fyrir lánið ætlar hann að byrja á því að dreifa gjöfum í bænum okkar.“
Allir voru glaðir og spenntir. Það var bara Sæmi, lítill drengur sem bjó í litlu húsi sem lítið bar á milli trjánna í útjaðri bæjarins, sem var leiður. „Jólasveinninn mun ekki taka eftir húsinu okkar,“ hugsaði hann. „Við Annika systir fáum engar gjafir.“ Hann horfði dapur í bragði á Birki og Björk, hreindýrin tvö sem höfðu verið valin í hlutverkið. Hann þekkti dýrin vel því hann hafði oft fylgt þeim þegar þau fóru á beit.
„Hvers vegna grætur þú, Sæmi litli?“ spurði Björk hann. Hann sagði henni frá áhyggjum sínum.
„Hafðu engar áhyggjur,“ sagði hreindýrið hughreystandi. „Við Birkir björgum því. Treystu okkur!“ Jólasveinninn kom og fór á sleðanum um bæinn með Birki og Björk í fararbroddi. Hann togaði í beislið til að beina hreindýrunum frá bænum en honum til mikillar undrunar fóru hreindýrin í allt aðra átt en hann ætlaði sér. Þau fóru að húsinu hans Sæma, sem var falið á milli trjánna. Áður en dregurinn vissi af var hann kominn með gjafirnar sem hann hafði dreymt um, í fangið. Sæmi og Annika litla systir hans veifuðu jólasveininum í þakkarskyni.
Litlar sögur af dýrum í Evrópu. Skjaldborg ehf., 2004.