Hann varð á vegi mínum eitt haustkvöld í norðlenskri sveit. Ég hafði brugðið mér af bæ og var á leið heim aftur, akandi í hlýjum bílnum og ekkert að flýta mér. Það var farið að dimma og hvergi ljósglætu að sjá. Allt í einu sá ég hreyfingu fyrir framan bílinn á veginum og það glitti í tvö augu í geislanum frá bílljósunum. Mér brá og fyrsta hugsunin var að komast hjá að keyra yfir dýrið sem hljóp til og frá, blindað af skæru ljósinu, kannski var þetta bara kattargrey á villigötum.

Þegar ég áttaði mig á að þarna hafði minkur skotist upp á veginn varð mér hugsað til þess að hann væri reyndar réttdræpur og auðvitað ætti ég að keyra yfir hann, annað eins skaðræðisdýr sem hefði kannski verið að enda við að drepa hænu eða önd heima á bænum. Það hafði einmitt gerst nýlega.

Á meðan þetta flaug í gegnum huga minn náði minkurinn að koma sér út af veginum og ég sá á eftir honum þar sem hann skaust með eldingarhraða í burtu. Líklega vorum við bæði jafnfegin ég og minkurinn, hann að vera sloppinn, auðvitað, og ég af því að þrátt fyrir allt gat ég ómögulega hugsað mér að keyra vísvitandi yfir hann.

Þórdís Guðjónsdóttir