Það var einu sinni bóndi sem átti hænsnabú
og ær og hest og kött og gæs og líka eina kú.
En eina dimma vetrarnótt þau sváfu’ öll sætt og rótt
er svartur grimmur minkur læddist þangað ofurhljótt.

Hænurnar æptu gogg, gogg gó.
Haninn galaði gaggala gó.
Bóndi vinur vakna þú
og ver þitt hænsnabú.

En bóndinn svaf og hanagreyið hágrét, auminginn
er horfði hann upp á minkinn elta pútuhópinn sinn.
En kisu litlu sem að þarna kúrði undir vegg
hverft varð við og hrökk upp er í hausinn fékk hún egg.

Hænurnar æptu gogg, gogg gó.
Og vöktu með því kisu,
kisa æpti mjá, mjá, mjá.
Haninn galaði gaggala gó.
Bóndi vinur vakna þú
og ver þitt hænsnabú.

En bóndinn vaknaði ekki og haninn var nú orðinn ær.
Hinn illi og ljóti minkur hafði étið hænur tvær.
Nú skrækti hann á bóndans hjálp og rámur æpti: Ræs.
Þá rumskaði í næsta kofa gömul syfjuð gæs.

Hænurnar æptu gogg, gogg gó,
og vöktu með því kisu.
Kisa æpti mjá, mjá, mjá
og vakti með því gæsina.
Gæsin gargaði bra, bra, bra.
Haninn galaði gaggala gó.
Bóndi vinur vakna þú
og ver þitt hænsnabú.

Ómar Ragnarsson