Kirchner_-_Kämpfe

Aldur – bekkur

6-7. bekkur

Tími

3-5 x 80 mín. kennslustundir

Bardagar (Kämpfe) eftir Erns Ludwig Kirchner. Mynd af Wikimedia Commons.

Kennslustund 1 (80 mín.):

INNLÖGN, HUGMYNDAVINNA og SKISSUGERÐ
Nemendum eru sýnd mynddæmi (bæði grafísk og máluð) eftir listamenn eins og Edvard Munch, Käthe Kollwitz, Karl Schmidt-Rottluff og fleiri. Rætt er um expressjónismann og helstu listamenn  með hjálp síðunnar um expressjónisma. Rætt um hvað einkenni myndirnar, hvernig myndbygging, línur og áferð eru notuð til að undirstrika tilfinningar.  Myndefnið rætt og hvaða tilfinningar vakna við skoðun þeirra og hvað gæti hafa vakað fyrir listamönnunum með verkunum. Einnig er rætt um grafísku verkin út frá því hvernig þau eru gerð. Því næst er nemendum sýnt hvernig dúkristur eru gerðar og farið í gegnum vinnuferlið framundan. Nemendur fá að velja sér ljóð eftir Davíð Stefánsson, t.d. „Konan sem kyndir ofninn minn“, „Lofið þreyttum að sofa“ eða „Mamma ætlar að sofna“. Davíð Stefánsson orti að mestu í ný-rómantískum stíl. Ljóð hans eru yfirleitt mjög myndræn og mörg lýsa vel mannlegum tilfinningum, örlögum, fátækt og eymd. Þau eru frekar auðskilin og henta því ágætlega nemendum í 6.-7. bekk. Nemendur vinna nokkrar skissur í A5 út frá ljóðinu sem þeir völdu og prófa ýmis konar myndbyggingu með mismunandi uppröðun forma og lína.

Kennslustund 2-3 (2 x 80 mín.):

ÚTSKURÐUR
Nemendur velja eina skissu í samráði við kennarann. Skissan er tekin í gegn á þunnan gagnsæjan pappír og verður notuð sem vinnuteikning. Teikningunni er snúið við og farið ofan í línur með tússpenna. Með tússpennanum eru allar línur og fletir sem eiga að vera svartir litaðir. Síðan er teikningin færð yfir á dúkinn með því að nota kalkípappír. Nemendur fá svo mismunandi útskurðarhnífa og skera í dúkinn út frá vinnuteikningunni.

Kennslustund 4-5 (2 x 80 mín.):

PRENTUN OG FRÁGANGUR
Nemendur prenta myndir sínar. Fyrst prófa þeir að prenta með svörtum prentlit á hvítan pappír. Því næst með svörtu á litaðan pappír. Að lokum fá þeir að prófa að prenta með fleiri litum (jafnvel mörgum á sama pappír), bæði á hvítan og litaðan. Nemendur hengja upp til bráðabirgða eina mynd af hverju tagi. Síðan er rætt um mismunandi áhrif eftir lit á pappír og lit á prentlit. Því næst er valin ein mynd eftir hvern nemanda til að hengja upp í skólanum. Nemendur velja litað karton sem passar við myndina og búa til ramma.

Myndir – mynddæmi

Tengt efni

Samþætting

 • Íslenska og ljóð

Markmið – áhersla

Nemendur:

 • kunni skissugerð og öðlist skilning á mikilvægi hennar sem eðlilegs hluta af vinnuferli
 • geti beitt litum til að fá fram áhrif í mynd
 • vinni skissur með áherslu á hvernig form, litir og myndbygging geta undirstrikað ákveðna þætti eða boðskap myndverks, t.d. með því að raða sömu formum upp á mismunandi vegu
 • þekki hugtakið fjölfelldi og a.m.k. eina grafíska aðferð, t.d. dúkristu
 • skoði mynddæmi um verk unnin í anda expressjónisma og geti lýst einkennum hans
 • geri sér grein fyrir verðmæti og eiginleikum efna sem unnið er með hverju sinni

Undirbúningur

 • Safna mynddæmum og ljóðum, efnum, áhöldum o.fl.

Efni – áhöld – hjálpargögn

 • 1. tími: Myndvarpi eða skjávarpi, myndir af verkum, ljóð, skissupappír, blýantur
 • 2. – 3. tími: Blýantur, svartir tússpennar, sniðpappír (þunnur gegnsær), kalkípappír, línóleum dúkur (A5), dúkristuhnífar, dúkristubretti.
 • 4.-5. tími: Prentlitur í ýmsum litum, pappír í ýmsum litum, grafíkpressa og rúllur, litað karton

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd