2b_6_lita_hringurAldur – bekkur

2. bekkur

Tími

2-3×80 mín kennslustundir

Kveikja

Nemendum sýndir hlutir í frumlitum, þeir skoðaðir og rætt um litina og spurt af hverju þeir heiti frumlitir og á hvaða hátt þeir séu ólíkir öðrum litum. Síðan eru sýndir hlutir í annars stigs litum og rætt um að hægt sé að fá fram litinn á þeim hverjum fyrir sig með því að blanda saman tveimur af frumlitunum. Nemendur hvattir til að segja frá hvernig þeir telji að blanda eigi grænan, appelsínugulan og fjólubláan lit. Að því loknu er verkferlið framundan útskýrt fyrir nemendum. (Einnig er hægt að leggja verkefnið inn með því að fara í gegnum þessa glærusýningu um 6 lita hringinn.)

Framkvæmd

Hægt er að láta nemendur vinna verkefnið á marga vegu, allt eftir aðstæðum og nemendahóp. Hér eru dæmi um tvær útfærslur.

Teikna fyrst og mála svo … (stöðvavinna)

Nemendur teikna ávexti og grænmeti á A3 blað og þeir minntir á að teikna stórt og fylla vel út í blaðið. Til hagræðingar geta þeir skipt blaðinu í 6 hólf, eitt fyrir hvern lit. Þegar þeir hafa lokið við að teikna er nemendum skipt í þrjá hópa sem hver um sig fær einn frumlit. Nemendur mála þá ávexti og grænmeti sem eru í frumlitunum og færa sig milli borða. Að því loknu fær hver hópur frumlit nr. 2 þannig að t.d. guli hópurinn blandar appelsínugulan, rauði hópurinn blandar fjólubláan og blái hópurinn blandar grænan. Síðan færa þeir sig á milli á sama hátt og áður og klára að mála hlutina á sínu blaði. Þegar myndirnar eru þurrar klippa nemendur út ávextina og grænmetið og raða því upp í sex lita hring  á karton í hlutlausum lit. Best er að segja nemendum að líma ekki fyrr en þeir eru búnir að raða öllum formunum og láta kennarann fara yfir.

Mála fyrst og teikna svo … (hópavinna)

Byrjað er á að skipta nemendum í þrjá hópa sem hver um sig fær einn frumlit. Nemendur mála heilt A3 blað með sínum lit. Að því loknu fær hver hópur frumlit nr. 2 þannig að t.d. guli hópurinn blandar appelsínugulan, rauði hópurinn fjólubláan og blái hópurinn grænan. Aftur mála nemendur heilt A3 blað. Þegar máluðu blöðin eru orðin þurr eru þau skorin niður þannig að hver nemandi fær 6 arkir (u.þ.b. A6-A5); 3 frumliti og 3 annars stigs liti. Nemendur teikna 2-3 ávexti á bakhlið blaðsins (muna að nýta blaðið vel), klippa út og raða þeim upp í sex lita hring á karton í hlutlausum lit. Best er að segja nemendum að líma ekki fyrr en þeir eru búnir að raða formunum og láta kennarann fara yfir.

Myndir – mynddæmi

Mynd08-09_2b_verkefni 00208-09_2b_verkefni 00308-09_2b_verkefni 00408-09_2b_verkefni 00508-09_2b_verkefni 006

08-09_2b_verkefni 00708-09_2b_verkefni 008Tengt efni

Markmið – áhersla

Nemendur:

 • vinni myndræna frásögn úr nánasta umhverfi, upplifunum og ímyndunum með því að nota á fjölbreytilegan hátt viðeigandi efni, verkfæri og tækni
 • þekki muninn á grunnformum og náttúrulegum formum
 • fjalli um hvaða gildi myndverk getur haft fyrir hvern og einn
 • lýsi myndverki og skoðun sinni á því
 • læri að teikna afmörkuð form og teikna stórt og skýrt
 • læri að lita og fylla upp í fleti
 • læri vönduð vinnubrögð

Undirbúningur

 • Taka til efni og sýnishorn í verkefnið

Efni – áhöld – hjálpargögn

 • 6 lita hringur – glærusýning
 • Litahringur til útprentunar (ef vill)
 • Hlutir í litum 6 lita hringsins
 • A3 karton hvítt
 • A3 karton í hlutlausum lit (skorið í ferning)
 • Blýantar (og strokleður ef þarf)
 • Þekjulitir í frumlitum
 • Penslar (stærð fer eftir útfærslu)
 • Málningarbakkar (gott er að nota plastbakka undan skyri eða jógúrt)

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd