3b_sol_hafAldur – bekkur

3. bekkur

Tími

2×80 mín kennslustundir

Kveikja

Litahringur er settur upp á töflu og dregin lína milli heitu og köldu litanna. Nemendur spurðir hvað sé ólíkt með litunum sitt hvoru megin við línuna. Hugtökin heitir og kaldir litir kynnt fyrir nemendum og þeir beðnir að nefna hluti í heitum litum og  köldum. Skrifa má eða teikna hlutina þeim megin sem þeir tilheyra. Einnig eru nemendum sýnd mynddæmi og þeir beðnir að segja hvort myndirnar séu heitar eða kaldar og hvaða myndefni á myndunum er í heitum og köldum litum (sjór er t.d. í köldum litum og sól í heitum).

Framkvæmd

Að þessu loknu er sjálft verkefnið kynnt fyrir nemendum. Nemendur fá blöð (ca 32 x 22,5 cm) og byrja á að teikna öldu yfir mitt blaðið. Þeir endurtaka ölduna niður blaðið og þurfa að passa að hafa línurnar ekki of þéttar þannig að erfitt sé að lita á milli. Því næst teikna nemendur hring á miðjan efri hluta blaðsins og hringi utan um og aftur þarf að passa að hafa línurnar ekki of þéttar. Notaðir eru Neocolor I litir í 15 lita öskjum og sniðugt er að láta nemendur flokka litina í heita og kalda áður en þeir byrja að lita. Ef þeir eru í vafa geta þeir borið litina saman við litina í litahringnum. Nemendur lita síðan sjóinn í köldum litum og sólina í heitum og eru hvattir til að lita þétt og fylla vel í reitina.

Aðeins flóknara tilbrigði við verkefnið:

Í stað þess að nemendur liti með Neocolor I er hægt að lita útlínurnar með Neocolor I litum og mála með vatnslitum í reitina á milli.

Myndir – mynddæmi

VanGogh-starry_night

Til vinstri: Stjörnunótt (Starry Night) máluð 1889. Til hægri: Willows at Sunset (Pílviðir við sólarlag) máluð 1888. Myndir eftir Vincent van Gogh af Wikimedia Commons.

Claude_Monet_015Claude_Monet_Le_Parlement_de_Londres

House of Parliament (Þinghúsið í London) Hluti af málverkaseríu eftir Claude Monet. Myndir af Wikimedia Commons.

Tengt efni

Markmið – áhersla

Nemendur:

  • geri sér grein fyrir að litir hafa mismunandi áhrif, eru t.d. heitir og kaldir

Undirbúningur

  • Undirbúa myndefni  og sýnishorn
  • Taka til efni og áhöld og hjálpargögn

Efni – áhöld – hjálpargögn

  • Litahringur til útprentunar
  • Skjávarpi til að sýna mynddæmi (ef hann er tiltækur)
  • Pappír (ca 32 x 22,5 cm)
  • Blýantur og strokleður
  • Neocolor I (15 lita öskjur)

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd