3b_Dagur_nott 1Aldur – bekkur

3-4. bekkur

Tími

2×80 mín kennslustundir

Kveikja

Nemendum sýnd mynddæmi af landslagi, helst bæði að næturlagi og í dagsbirtu. Rætt um litina í myndunum, áhrifum ljóss og skugga, litunum sem notaðir eru í ljósu fletina og skuggafletina o.fl. Einnig má sýna nemendum áhrif ljóss á hluti í kringum okkur með því að setja einhvern litríkan hlut á borð og kassa yfir með smá götum til að nemendur geti kíkt í gegnum. Inni í kassanum kemst lítið ljós að hlutnum og erfitt að greina lit hans. Þegar kassinn er fjarlægður og dagsbirtan eða ljósin í stofunni skína á hann sést hvernig hann er á litinn. Rætt er við nemendur um litina í litahringnum og hvernig við getum gert þá ljósari með því að blanda þá með hvítum og dekkri með því að blanda þá með svörtum.

Að auki þarf að vekja athygli nemenda á myndbygginu í mynddæmunum, ræða um hugtökin nálægð og fjarlægð, forgrunn, bakgrunn og miðrými og hvort hreyfing sé í myndunum.

Framkvæmd

Nemendur teikna 2 myndir með samskonar landslagi á tvö blöð og hafa í huga hugtökin forgrunn, bakgrunn og miðrými. Ég sýni þeim einfalda aðferð til að skipta myndinni með tveimur línum í forgrunn, miðrými og bakgrunn og um leið teikna landslag. Efri línan myndar útlínur fjallanna og skilin milli himins (bakgrunns) og miðrýmis (fjalla). Neðri línan myndar fjallsræturnar og skilin milli fjalla og sléttlendis (miðrýmis og forgrunns). Önnur myndin er af landslagi í dagsbirtu og þá þurfa nemendur að blanda ljósa liti. Hin er af landslagi að næturlagi svo nemendur þurfa að blanda dökka liti.

Í þessu verkefni hafa nemendur aðeins notað grunnlitina plús svartan og hvítan. Að mínu mati er betra að byrja á dagsbirtumynd og þá fá nemendur auk grunnlita talsvert af hvítum lit. Þegar kemur að næturlandslagsmynd þá þarf að vara þá við að nota of mikið af svörtum til að dekkja litina (og passa að láta þá ekki fá of mikið af svörtum). Nemendur fá málninguna á plastlok, pappaspjald eða annað sem hentar og þeim sýnt hvernig á að bera sig að við að mála myndina. Þeim er kennt að blanda litina beint á pappírinn og hvernig hægt sé að halda málningunni á lokinu hreinni með því að dýfa ekki í miðjan litinn heldur taka lit úti í kantinum. Einnig er nemendum ráðlagt að byrja á að mála bakgrunninn (himininn), svo miðrýmið (fjöllin) og að síðustu forgrunninn (jafnsléttuna). Nemendur eru hvattir til að íhuga hvernig umhverfið sé á litinn og hvernig þeir geti blandað slíka liti. Að mínu mati þurfa þeir ekki að skola penslana á milli lita þar sem ekki er ætlast til að þeir máli í hreinum eða tærum litum. Ég læt því nemendur ekki fá vatn til að skola penslana en ef þörf er á að þeir skoli penslana þá bendi ég þeim á aðgera það í vaskinum, þurrka penslana og halda áfram að mála. Einnig bendi ég nemendum á að ef þeir vilja breyta um lit á einhverjum stað þá er best að bíða eftir að sá hluti þorni og mála svo yfir.

Myndir – mynddæmi

Sid_VanGogh-starry_nightVincent_Van_Gogh_0020

Til vinstri: Stjörnunótt eftir Vincent van Gogh, máluð 1889. Mynd af Wikimedia Commons.
Til hægri:
Kornakur með sýprisviði eftir Vincent van Gogh, máluð 1889. Mynd af Wikimedia Commons.

Tengt efni

Markmið – áhersla

Nemendur:

 • þekki einfalda myndbyggingu og mun á forgrunni, bakgrunni og miðrými ásamt kyrrð og hreyfingu í byggingu mynda
 • skoði mismunandi mynddæmi sem sýna ólíkar úrfærslur á sama viðfangsefninu, t.d. á hugtakinu fjall eða landslag í nútíð og fortíð; áhersla skal lögð á það að myndlistarmenn nota mismunandi nálgun við sama viðfangsefni
 • geti lýst munnlega áhrifum verks, t.d. hvort um er að ræða kvöld, nótt, dag o.s.frv. eða tilfinningalega þætti, s.s. gleði og sorg
 • þekki virkni ljóss og skugga í umhverfinu og geti tjáð uppgötvanir sínar á einfaldan hátt í eigin verkum
 • vinni með rýmistilfinningu í myndgerð; áhersla skal lögð á litafræði, einkum andstæða liti, ljós og skugga, heita og kalda liti

Undirbúningur

 • Safna hlutum og fleiri mynddæmun til að sýna nemendum og útbúa sýningarkassa.

Efni – áhöld – hjálpargögn

 • Skjávarpi til að sýna mynddæmi (ef einn slíkur er tiltækur)
 • 170-240 gr. pappír, stærð 45×32 cm
 • Þekjulitir: grunnlitir + hvítur og svartur
 • Flatir penslar (stærð 12-16)
 • Plastlok/pappaspjald til að setja málningu á
 • Skemmtilegt er að nota trönur í þessu verkefni og ekki skemmir fyrir ef fjallalandslag sést út um gluggann

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd