5b_grimur (12)5b_grimur (18)Aldur – bekkur

5. bekkur

Tími

4×80 mín. kennslustundir

Kennslustund 1 (80 mín):

INNLÖGN, SKISSUGERÐ OG UNDIRBÚNINGUR

Nemendum sýndar myndir af grímum frá ýmsum löndum (sjá tengla neðar á síðunni) og rætt um hvernig þær eru skreyttar og hvaða form þau sjái, hvort það séu grunnform eða náttúruleg form og hvort þau myndi mynstur. Benda má á hvernig formin eru notuð til að einfalda andlitsdrættina. Einnig er rætt um litanotkun, hvort notaðir séu frumlitir eða blandaðir litir.

Nemendur byrja á að gera skissu af sinni grímu og eru hvattir til að skreyta þær með formum og mynstrum. Síðan teikna þeir útlínur grímu á stíft karton eftir grímuskapalóni. Skapalónið er notað til að augu og nef séu á réttum stað og til að grímurnar verði nógu stórar til að hylja andlitin vel. Nemendur geta síðan breytt laginu á grímunum ef þeir vilja.
Kennari sker út fyrir augum og nefi.
Hver nemandi fyllir plastpoka (á stærð við venjulegan innkaupapoka) með krumpuðum dagblöðum. Pokinn er lokaður með málningateipi og myndaður nokkurs konar sívalningur sem notaður er til að forma grímuna. Gríman er síðan teipuð við „sívalninginn“. (sjá skýringarmyndir)

Kennslustund 2-3 (2×80 mín):

PAPPAMASSAVINNA

Nemendur fá dagblöð sem búið er að rífa í ræmur (ca 4-5 cm breiðar). Ræmurnar eru makaðar báðum megin með hæfilegu magni af veggfóðurlími. Áður en þær eru settar á grímuna er nauðsynlegt að bera lím á grímuna líka annars festast þær ekki nógu vel. Ágætt er að fara fyrstu umferðina þversum og þá næstu langsum o.s.frv. Benda þarf nemendum á að ræmurnar verði að skarast og að festa það sem fer út fyrir vel á bakhlið grímunnar.

Þegar kemur að nefinu er nefflipanum lyft upp og ræmurnar sett allt í kringum nefið en nefopinu haldið opnu. (Best er að geyma nefið þar til síðast). Nemendur geta sett ræmurnar yfir augun pota svo í gegn um götin meðan ræmurnar eru enn blautar og snyrt götin.

Nefið er gert þannig að nefflipanum er lyft aðeins upp og fyllt upp í gapið sem myndast hvoru megin með dagblaðaræmum.

Það er misjafnt hvað nemendur ná að gera margar umferðir í tímanum en lágmarkið 3-4 umferðir. Þeim mun fleiri umferðir, þeim mun sterkari verður gríman. Hægt er að nota hvítan pappír í síðustu umferðina og sleppa því að grunnmála hana hvíta. Nú eru grímurnar látnar þorna þar til í næsta tíma.

Lengja má verkefnið með því að láta nemendur gera upphleypt mynstur á grímuna t.d í kringum augu, munn eða nef. Þá dýfa þeir ræmunum í límið, strjúka það mesta af þeim og krumpa í snúrur, kúlur, kubba eða hvað sem þeim dettur í hug. Síðan þarf að fara eina umferð með ræmum yfir mynstrin og muna að þrýsta vel upp að þeim þannig að ekki myndist loftrúm.

Kennslustund 4 (80 mín):

MÁLUN OG SKREYTING

Grímurnar eru losaðar af plastpokanum og grunnaðar með hvítri akrílmálningu (ef ekki hefur verið notaður hvítur pappír í síðustu umferð). Síðan styðjast nemendur við skissurnar og mála mynstur á grímurnar með akrílmálningu. Að síðustu, þegar málningin er þornuð, er sett teygja í grímurnar. Ef tími vinnst til má skreyta grímurnar enn frekar með alls konar hlutum s.s. fjöðrum, baunum, garni o.fl. Þá er best að lakka yfir með glæru vatnslakki.

Myndir – mynddæmi

5b_grima-skyring_25b_grima-skyring_1

Skýringarmyndir

Tengt efni

Markmið – áhersla

Nemendur:

 • þekki möguleika línunnar og vinni með hana á markvissan hátt
  • geti skapað hreyfingu og kyrrð með ólíkum útfærslum línunnar, t.d. láréttum og lóðréttum
  • geti myndað samfelld mynstur
 • útfæri mynstur og fléttur bæði í tvívíðri og þrívíðri vinnu
 • viti að hefðbundin mynstur byggjast á notkun tákna
 • nýti sér í eigin sköpun aðferðir sem fela í sér að kanna form og liti fyrirmynda
 • geti lýst munnlega og skriflega grunnþáttum myndlistarinnar á einfaldan hátt, s.s. línunotkun, þeim formum sem birtast í verkinu, litanotkun, hvaða efni verkið sé unnið úr, gerð þess og byggingu

Undirbúningur

 • Finna myndefni til að sýna nemendum og efni í verkefnið

Efni – áhöld – hjálpargögn

 • Grímuskapalón – stækkið skjalið upp í 125% (til samanburðar: A4 upp í A3 = 147%)
 • Skissupappír
 • Blýantar (og strokleður ef þarf)
 • Stíft karton (t.d. afskurður frá Kassagerðinni)
 • Plastpoki m/krumpuðum dagblöðum
 • Málningarteip
 • Dagblaðaræmur
 • Veggfóðurlím
 • Akrílmálning
 • Rúnnuð teygja

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd