5b_skorinn_minn_2Aldur – bekkur

5. bekkur

Tími

2×80 mín. kennslustundir

Kveikja

Nemendum sagt að ætlunin sé að byrja verkefnið á smá tilraun. Þeir fá lítil skissublöð og blýanta. Kennarinn stillir upp einföldum hlut (könnu eða bolla) fyrir framan nemendur þannig að allir sjái (með það í huga að þeir sjái hlutinn frá mismunandi sjónarhornum). Nemendur eru beðnir um að teikna hlutinn. Þetta má ekki taka langan tíma (ca 1-3 mín). Myndirnar eru síðan settar upp á töflu og skoðaðir í sameiningu. Flestir hafa líklegast teiknað hlutinn eins og þeir sjá hann fyrir sér í huganum (skematísk teikning) og hafa ekki tekið tillit til þess hvernig hluturinn leit út frá þeirra sjónarhorni. Ef einhver hefur hins vegar teiknað hlutinn eins og hann lítur út frá hans sjónarhorni má nota þá mynd til að útskýra muninn á því að teikna það sem heilinn sér eða það sem augað sér.

Ef tími er til mætti láta nemendur gera eina æfingu enn þar sem þeir eiga að teikna útlínur hlutarins með því að fylgja útlínum hans með augunum og án þess að líta á blaðið (blind contour drawing).

Að lokum er nemendum sagt að í aðalverkefninu þ.e. skóverkefninu eigi að teikna með augunum en ekki heilanum. Teikna á útlínur skósins og allar línur og smáatriði sem þeir sjá á skónum.  Nemendur teikna skóinn frá þremur hliðum: ofan frá, neðan frá og frá hlið. Frá þessum hliðum eru ekki neinar styttingar. Kennarinn verður að meta hvort hann vilji að nemendur teikni frá öðrum sjónarhornum þar sem e.t.v. koma fram styttingar.

Framkvæmd

Nemendur fá pappír og gögn sem þeir þarfnast hefjast handa við skóinn og þeir minntir á að teikna laust.

Nemendur stilla skónum upp frá því sjónarhorni sem þeir ætla að byrja á að teikna hann. Ef þeir ætla að byrja á að teikna skóinn neðan frá (skósólann) verða þeir að stilla skónum þannig upp að þeir sjái sólann vel. Nemendur þurfa e.t.v. einhvern hlut t.d. hinn skóinn eða e-ð annað til að skorða skóinn þannig að auðvelt sé að teikna hann frá því sjónarhorni.

Nemendur byrja á því að æfa sig á skissublað. Æfingin felst í því að fylgja nákvæmlega útlínum skósins með augunum og teikna hann án þess að líta á blaðið (blind contour drawing). Að því loknu teikna þeir skóinn á stærra blað með því að fylgja útlínunum með augunum en mega núna kíkja af og til á blaðið.

Áður en þeir byrja að teikna á stærra blaðið þurfa nemendur að ákveða hvar á blaðinu hver hlið á að vera. Til að finna það út er ágætt að leggja sjálfan skóinn á blaðið og merkja við hæl, tá og við hliðarnar. Þetta eru hjálparlínur sem hjálpa síðan til við það að teikna skóinn nokkurn veginn í réttri stærð.

Þegar búið er að teikna útlínurnar, teikna nemendur allar línur og smáatriði sem eru á skónum. Ekki á að skyggja myndina en nemendur fara ofan í blýantsteikninguna með útlínutúss. Þeir sem eru fljótir að vinna geta litað skóna með trélitum og jafnvel fyllt út í neikvæða rýmið með bakgrunnsteikningu og litað.

Myndir – mynddæmi

5b_skorinn_minn_15b_skorinn_minn_3

Tengt efni

Markmið – áhersla

Nemendur:

 • þekki möguleika línunnar og vinni með hana á markvissan hátt
 • geti skapað hreyfingu og kyrrð með ólíkum útfærslum línunnar, t.d. láréttum og lóðréttum
 • geti unnið með mismunandi sjónarhorn, t.d. séð ofan frá og frá hlið
 • þekki hugtakið sjónarhorn og geri kannanir og verkefni tengd því

Undirbúningur

 • Finna til efni í verkefnið

Efni – áhöld – hjálpargögn

 • Kanna eða bolli með haldi og/eða stút
 • Skór (hver nemandi kemur með sinn skó)
 • Pappír ca 32x45cm eða A3
 • Skissublöð ca A4
 • Blýantar (og strokleður ef þarf)
 • Svartur útlínutússpennar ( t.d. Artline 210 nr. 0,6 eða Artline 200 nr. 0,4)
 • E.t.v. trélitir

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd