6b_Esjan_impressjonAldur – bekkur

5.-10. bekkur

Tími

2-3 x 80 mín. kennslustundir

Inngangur

Í Borgaskóla erum við svo heppin að hafa útsýni úr myndmenntastofunni yfir Esjuna og fjöllin í kring s.s. Skálafell, Mosfell og Úlfarsfell. Við fylgjumst með fjöllunum allt skólaárið og sjáum greinilega hvaða áhrif árstíðirnar og mismunandi birta hefur á litbrigði þeirra og umhverfið í kring. Það er því óhjákvæmilegt að við skoðum Esjuna og hin fjöllin þegar við fjöllum um impressjónismann og list þeirra listamanna sem undir þá stefnu heyra.

Þó Esjan sé útgangspunktur í þessu verkefni þá er að sjálfsögðu hægt að vinna verkefnið án hennar. Notast má við hvaða „mótíf“ sem er, hvort sem það er útsýnið út um gluggann á kennslustofunni, uppstillingar eða jafnvel náttúruljósmyndir.

Kennslustund 1 (80 mín.):

INNLÖGN (og MÁLUN ef tími vinnst til)

Byrjað er á að kynna impressjónismann og helstu listamenn fyrir nemendum með hjálp síðunnar um Impressjónisma.

Að því loknu er nemendum sagt að verkefni þeirra felist í að mála mynd af fjöllunum sem við sjáum út um gluggann (eða öðru mótífi sem hentar) og nota aðferðir impressjónistanna. Þeir munu mála 2 myndir, eina í þessum tíma og aðra í tíma þegar birtuskilyrðin eru önnur (sem gerist oft á Íslandi). Þannig fá þeir 2 dæmi um mismunandi áhrif birtunnar á viðfangsefnið.

Áður en nemendur byrja er gott að vera með sýnikennslu í málunartækninni og sýna að:

 • gott er að skissa landslagið lauslega með ljósri krít áður en byrjað er að mála
 • impressjónistar skelltu yfirleitt litunum óblönduðum á strigann í skellum og dreifðu helst ekkert úr þeim eftir það
 • hægt er að mála t.d. ljósbláan himinn með því að setja hvítan og bláan lit hlið við hlið beint á strigann í stað þess að blanda litunum fyrst saman á pallettunni
 • hægt er að ná í nýjan lit í pensilinn án þess að liturinn á pallettunni blandist (dýfa penslinum í kantinn á málningunni en ekki í miðjuna)
 • hægt er að nota andstöðuliti í skugga og sleppa því að nota svartan lit
 • hentugast er að byrja á að mála bakgrunninn (himininn), síðan miðrýmið (fjöllin) og síðast forgrunninn (láglendið)
 • ekki þurfi að mála nein smáatriði eins og hús eða slíkt, aðeins eigi að einbeita sér að litblæ náttúrunnar

Innlögnin og sýnikennslan gæti tekið drjúgan hluta og jafnvel alla kennslustundina. Meta þarf hvort nægur tími sé til að byrja að mála eða hvort nýta eigi restina af tímanum til að skissa gróflega með ljósri krít landslagið (mótífið) sem nemendur ætla að mála.

Kennslustund 2 (80 mín.):

MÁLUN

Byrjað er á að rifja upp atriðin sem komu fram í sýnikennslunni. Nemendur koma trönunum fyrir þannig að þeir hafi gott útsýni yfir það fjall (eða annað mótíf) sem þeir ætla að mála. Fyrri pappírsörkin er fest á spjaldið og landslagið gróflega skissað með ljósri krít (ef þeir eru ekki búnir að því). Nemendur fá því næst málningu og pensla og hefjast handa.

Kennslustund 3 (80 mín.):

MÁLUN (í öðruvísi birtu)

Smá upprifjun í byrjun kennslustundar og svo sama ferli og í síðustu kennslustund.

Myndir -mynddæmi

Tengt efni

Markmið – áhersla

Nemendur:

 • geti sýnt fram á að stærðarhlutföll, skörun og litir hafi rýmisskapandi áhrif
 • viti að sólarljós og veðurfar hefur áhrif á liti umhverfisins
 • geti beitt litum til að fá fram áhrif í mynd
 • skoði mynddæmi um verk unnin í anda impressjónisma og geti lýst einkennum hans
 • kanni mismunandi útfærslu impressjónista á ljósi og áhrifum þess, t.d. á yfirborð hluta, liti og litameðferð

Undirbúningur

 • Finna til efni og áhöld í verkefnið

Efni – áhöld – hjálpargögn

 • Trönur og spjöld til að setja pappírinn á
 • Þykkur teiknipappír ca 32x45cm
 • Þekjulitir; gulur, rauður, blár, hvítur (ekki svartur)
 • Flatur pensill (nr. 16 er fín stærð)
 • Plastlok (ca 20cm í þvermál), notuð sem pallettur fyrir málningu

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd

You must be logged in to post a comment.