05-06_7b_kubismi 002Aldur – bekkur

7. bekkur

Tími

2×80 mín kennslustundir

Kveikja

Farið í hvað sé uppstilling (kyrralífsmynd) og hver sé munurinn á uppstillingu og t.d. „portrett“ myndum eða landslagsmyndum. Mynddæmi skoðuð og rætt um myndefni, myndbyggingu, dýpt eða ekki dýpt, sjónarhorn, skyggingar o.fl. sem kemur fram á myndunum. Litanotkunin skoðuð t.d. hvernig skiptast á fletir og útlínur.

Framkvæmd

Hægt er að útfæra þetta verkefni á marga vegu. Hér eru 2 dæmi.

Útfærsla 1.

Hafa eina stóra uppstillingu í miðri kennslustofunni. Nemendur sitja hringinn í kring og teikna einn hlut úr uppstillingunni á blöð (nota pappír í alls konar litum, dagblöð eða blöð úr tímaritum, pappír sem búið er að mála á t.d. gömul verkefni). Færa sig svo reglulega úr stað og teikna annan hlut á annað blað. Nemendur hvattir til að teikna suma hlutina ofanfrá, aðra frá hlið og enn aðra neðanfrá.

Þessar myndir eru svo klipptar út og raðað saman í eina stóra mynd (þykkur pappír í A2). Áður en myndirnar eru límdar niður er bakgrunnur (T.d. borð með köflóttum dúk) teiknaður og málaður (þekjulitir eða vatnslitir) eða litaður (pastelkrít eða olíukrít) eða klippa pappír (eins og í hlutina). Nota má allar aðferðirnar.

Útfærsla 2.

Nemendur byrja á að gera bakgrunninn á þykkan A2 pappír eins og lýst er í útfærslu 1. Hlutum sem geta verið í uppsillingunni er safnað á einn stað og þangað geta nemendur sótt sér einn hlut í einu og teiknað hvern fyrir sig frá a.m.k. 2 sjónarhornum á A4 blöð á sama hátt og í útfærslu 1. Nemendur hvattir til að teikna sama hlutinn ofan frá, frá hlið eða neðan frá og teikna hlutinn misstóran. Þessar myndir eru svo klipptar út og raðað á bakgrunninn þar sem ólíkum sjónarhornum er skeytt saman og hlutir aflagaðir í stærð og lögun. Svo er allt límt niður. Ef vill er hægt að fara ofan í sumar útlínur með svörtum lit eða tússpenna.

Myndir – mynddæmi – tengt efni

Markmið – áhersla

Nemendur:

 • teikni hluti eftir fyrirmynd, s.s. uppstillingu og/eða umhverfisteikningu
 • vinni með form á fjölbreytilegan hátt t.d. einfalda, brjóta upp, þenja út og draga saman og teikna sama formið frá fleiru en einu sjónarhorni
 • vinni skissur með áherslu á hvernig form, litir og myndbygging geta undirstrikað ákveðna þætti myndverks, t.d. með því að raða sömu formum upp á mismunandi vegu
 • þekki samhengi grunnforma í tvívídd og þrívídd
 • þekki hugtakið uppstilling og skoði mynddæmi af þeirri tegund myndverka og skilji hvað í því felst
 • þekki og geti fjallað um mynddæmi um kúbisma, s.s. mismunandi einföldun og uppbrot forma, sjónarhorn og litanotkun
 • geti lýst á einfaldan hátt munnlega og skriflega helstu einkennum kúbismans og abstraktsins
 • þekki hugtakið uppstilling

Undirbúningur

 • Taka saman hluti til að nota í uppstillingu. Ekki væri verra ef hægt er að nota gítar eða e-ð hljóðfæri þar sem slíkt var vinsælt myndefni hjá kúbistum.
 • Finna til mynddæmi af kúbisma
 • Finna til efni og áhöld sem nota á í verkefnið

Efni – áhöld – hjálpargögn

 • Hlutir í uppstillingu
 • Listaverkamyndir og bækur
 • A2 þykkur pappír
 • Alls kyns pappír (í ýmsum stærðum og litum, úr dagblöðum, tímaritum, umbúðapappír o.þ.h.)
 • Blýantar
 • Olíupastel
 • Pastelkrít
 • Þekjulitir
 • Vatnslitir
 • Penslar o.fl.

Nafn sendanda

Sigrún Ólafsdóttir

Skóli

Borgaskóli

Gefðu verkefninu einkunn:

[ratings]

Athugasemdir

Skrifaðu athugasemd