Endurreisn
u.þ.b. 1350-1600
Endurreisnartímabilið er talið hefjast á Ítalíu á 13. og 14. öld og ná fram á seinni hluta 16. aldar. Á þessum tíma komu fram listamenn sem vildu endurvekja heimspeki, fagurfræði og vísindi Forn-Grikkja og Rómverja. Þetta varð blómaskeið í listum og vísindum. Meðan gotneska listin miðaði að trúarlegri leit inn á við beindi endurreisnin sjónum sínum að manninum og hinu jarðneska, veraldlega lífi.
Margar nýjungar komu fram bæði í vísindum og listum. Arkítektinn Brunelleschi er sagður hafa fundið upp eins punkta fjarvíddina sem síðar var þróuð til að nota í málverkum. Þetta gerði málverkin miklu raunsærri og raunverulegri.
Gullinsnið er eitt af því sem endurreisnarmenn sóttu til Forn-Grikkja og notuðu bæði í arkítektúr og málverkum. Gullinsnið er u.þ.b. hlutfallið milli talna eins og 8 og 5 (? 1,6) eða milli talna eins og 13 og 8 (? 1,625). Nákvæmari tala fyrir hlutfallið er 1,618… og er táknað með óræðutölunni Phí/?. Hægt er að sýna gullinsnið t.d. sem ferhyrning með langhliðarnar 8 cm langar og skammhliðarnar 5 cm langar. Af einhverjum ástæðum finnst flestum slíkur ferhyrningur fallegri en t.d. ferningur (allar hliðar jafn langar) eða ferhyrningur með lengri langhliðar og styttri skammhliðar. Gullinsnið má finna í náttúrunni allt í kringum okkur og jafnvel í hlutföllum mannslíkamans.
Myndhöggvarinn Michelangelo var frægur fyrir túlkun sína á mannslíkamanum og lagði mikið upp úr að hafa styttur sínar sem raunsannastar. Hann og fleiri endurreisnarlistamenn stunduðu meira að segja krufningar til að rannsaka hvernig líkami mannsins væri saman settur.
Davíð eftir Michelangelo. Mynd af Wikimedia Commons.
Prentun og prentlist þróaðist hratt á þessum tíma, ekki síst eftir að Evrópumenn lærðu að búa til pappír á 13. öld og eftir að Gutenberg fann upp prentvélina um 1440. Listamenn hófu að myndskreyta bækur með tréristum, koparstungum og ætingum og er slík list oft nefnd svartlist eða grafíklist. Með hinni nýju prenttækni var hægt að prenta bækur á pappír í mörgum eintökum. Þýski endurreisnarlistamaðurinn Albrecht Dürer var meistari á sviði svartlistar.
Madonna of the Meadow (1505-06)
eftir Rafael. Mynd af Artstamps.
Hingað til höfðu málarar mest málað á veggi (freskur) eða á tréplötur með eggtempera litum (litaduft blandað saman við eggjarauðu til að binda það saman) en hófu nú að mála á striga með olíumálningu. Hollenski málarinn Jan van Eyck er talinn einn af upphafsmönnum að notkun olíumálningar sem búin er til með því að blanda línolíu saman við litaduftið. Slík málning er lengur að þorna og gaf nýja möguleika t.d. í sambandi við skyggingu. Notkun olíulita breiddist hratt út og Leonardo da Vinci (sem endurbætti olíulitina) notaði hina nýju skyggingartækni (sfumato) m.a. í hinu fræga málverki af Mónu Lísu. Margir merkir listamenn komu fram á endurreisnartímanum og má þar m.a. nefna Botticelli, Donatello og Rafael.
Endurreisnin náði einnig til Norður-Evrópu og náði miklum hæðum í Hollandi og Flæmingjalandi (Belgíu). Meðal merkustu endurreisnarmanna í Norður-Evrópu má nefna Jan van Eyck, Albrecht Dürer, Hans Holbein yngri, Hieronymus Bosch, Pieter Bruegel eldri og Pieter Bruegel yngri.
Tenglar:
- Á Myndmennt:
- Frumþættir: Rými: Fjarvídd, Gullinsnið
- Viðfangsefni: Grafík
- Endurreisnartímabilið – Inngangur að fyrirlestri í Listasögu 1. árs í Myndlista- og Handíðaskólanum, vorið 1998 – Eftir Má Örlygsson
- Hugi.is (myndlist) – Há-endurreisnartímabilið (ritgerð)
- Italian Renaissance Art – Síða tileinkuð ítalskri endurreisn – Góð tímalína
- Metropolitan Museum of Art (MetMuseum) – Renaissance
- Norski listavefurinn – Endurreisn 1400-1600 – Stuttur og hnitmiðaður texti
- Olíulitir – Viðfangsefni – Myndmennt
- Renaissance Connection – Gagnvirk síða um endurreisnartímabilið – Einnig verkefni o.fl.
- Vísindavefurinn – Endurreisn
- Wikipedia:
- Endurreisn (enska)
- Endurreisn (íslenska)
- Endurreisnin á Ítalíu (enska)
- Ítalska endurreisnin – málun
- Klassísk fornöld (íslenska)
Heimildir:
- Auður Ólafsdóttir. (1.3.2000). „Af hverju er málverkið af Mónu Lísu svona frægt? Eru til fleiri gerðir af því en ein? “. Vísindavefurinn. http://visindavefur.is/?id=172
- Endurreisnin. (2009). Wikipedia. http://is.wikipedia.org/wiki/Endurreisnin
- Gombrich, E.H.. (1997). Saga listarinnar (16. útgáfa), (Halldór Björn Runólfsson), (bls. 287-385). Reykjavík: Mál og menning. (1995).
- Guðmundur Ármann Sigurjónsson. (22.05.2009). Verkmenntaskólinn á Akureyri, Listir og menning 103, Glósur orðskýringar. Verkmenntaskólinn á Akureyri. http://kennarar.vma.is/garmann/lim103/Hugtok.htm
- Hanne Opedal og Lisbeth Thomassen. Endurreisn. Listavefur fyrir 5.-10. bekk. http://www.namsgagnastofnun.is/norsk_kunstweb/epoker/epoker_retninger.htm
- Hvítlist. Saga pappírs. http://hvitlist.is/Vorur/Pappir/Saga-pappirs/
- ©2007 SANFORD, A Newell Rubbermaid Company. Renaissance . A Lifetime of Color. http://www.alifetimeofcolor.com/main.taf?p=3,1,3,19
- Jón Gunnar Þorsteinsson. (24.9.2004). „Hvað var endurreisnartímabilið og hvað var svona merkilegt við það í myndlist?“. Vísindavefurinn. http://visindavefur.is/?id=4529.