Síð-impressjónismi

u.þ.b. 1880-1900

Cezanne

St. Victoire-fjall (Montagne Sainte-Victoire) eftir Paul Cézanne, máluð ca 1897. Mynd af Wikimedia Commons.

Eitt af einkennum þeirra listastefna sem fylgdu í kjölfar impressjónismans er minnkandi áhersla á að skapa dýpt t.d. með skyggingu svo og á hefðbundna fjarvídd eins og endurreisnarmenn fundu upp. Listamennirnir vildu nota sterka, skæra og bjarta liti og margir fórnuðu dýptaráhrifunum sem fást með því að tóna niður litina en litir virðast daufari eftir því sem þeir eru fjær.

Listamennirnir sem fylgdu í kjölfarið vildu allir þróa impressjónismann áfram hver á sinn hátt og glímdu við ýmis vandamál.

Einn þessara listamanna var Paul Cézanne. Hann vildi nota skæra og bjarta liti impressjónismans en einnig skapa samræmi og jafnvægi í myndbyggingu s.s.fjarlægð og dýpt. Hann notaði gróf pensilför til að móta hluti og sýna stefnu þeirra og legu. Aðferð hans og stíll hafði mikil áhrif á kúbistana Picasso og Braque.

VanGogh-starry_nightStjörnunótt (Starry Night) eftir Vincent van Gogh, máluð 1889. Mynd af Wikimedia Commons.

Vincent Van Gogh var hollenskur prestsonur sem vann við trúboð þegar hann ákvað að verða málari. Hann var sjálflærður og með aðstoð Theo bróður síns gat hann sinnt listsköpun sinni í Arles í suður Frakklandi. Van Gogh var hrifinn af félagslegu myndefni raunsæislistamanna eins og Jean-Francois Millet. Hann heillaðist einnig af japönskum tréristum sem voru mjög vinsælar í París á þessum tíma. Honum líkaði við litanotkun og pensilstrokur impressjónistanna en pensilstrokur Van Gogh lýstu einnig hans innri ólgu og sálarástandi. Hann var einmana og skrifaði bróður sínum oft og sagði frá líðan sinni, hugmyndum og væntingum. Hann vildi að list sín veitti öllum, bæði ríkum og fátækum, gleði og huggun og segja má að það hafi ræst því Van Gogh er einn dáðasti og vinsælasti listamaður allra tíma. List Van Gogh hafði sterk áhrif á listamenn sem kallast expressjónistar m.a. Edvard Munch.

gauguin-christ-jauneGuli Kristur (The Yellow Christ) eftir Paul Gauguin, máluð 1889. Mynd af WebMuseum.

Paul Gauguin starfaði sem verðbréfasali áður en hann byrjaði að mála. Hann var að mestu sjálflærður eins og Van Gogh og var á sama tíma og hann í Arles. Samskipti þeirra Van Goghs enduðu með ósköpum og Gauguin flúði til Parísar.

Gauguin var á móti því að list væri yfirborðskennd og glysgjörn. Hann vann að því að gera sköpun sína einlæga með því að einfalda form, myndbyggingu og litanotkun og nota ekki hefðbundnar aðferðir til að sýna dýpt. Til að ná þessum markmiðum yfirgaf hann ys og þys Parísarborgar og bjó meðal innfæddra á Suðurhafseyjum. Þar bjó hann og málaði þar til hann dó. List hans varð leiðarljós margra „villtra“ listamanna og listastefna sem aðhylltust frumstæða list (fauvismi og prímitívismi).

Tenglar:

LISTAMENN (í tímaröð):

AÐRIR ÞEKKTIR LISTAMENN FRÁ ÞESSUM TÍMA:

Heimildir:

  • Gombrich, E.H.. (1997). Saga listarinnar (16. útgáfa), (Halldór Björn Runólfsson), (bls. 530-555). Reykjavík: Mál og menning. (1995).
  • Sonia Whillock-Moore og Pamela Shiels. (2009). Children’s Book of Art ( 1. útgáfa), (bls. 68-69). London: Dorling Kindersley Limited.
  • © RM 2009. Helicon Publishing is division of RM. Post-Impressionism http://www.tiscali.co.uk/reference/encyclopaedia/hutchinson/m0012573.html