Expressjónismi

u.þ.b. 1900-1940

Á ensku þýðir orðið expression tjáning. Orðið þýðir líka svipur eða svipbrigði og svipbrigði sýna oft líðan og tilfinningar. Þetta lýsir vel hvað expressjónismi gengur út á. Expressjónistar bæði tjá tilfinningar og vekja tilfinningar hjá áhorfandanum. Expressjónismi snýst um hið andlega og tilfinningalega í lífi mannsins.

Síð-impressjónistinn Vincent Van Gogh sýndi ólgu innri sálarlífs og tilfinninga í pensilstrokum sínum og litanotkun.

ExpressjónismiÓpið (1893) eftir Edvard Munch. Mynd af  Wikipedia.

Norski listamaðurinn Edvard Munch er einn af fyrstu listamönnunum til að þróa þennan tjáningarmáta. Þetta sést vel í málverki hans Ópinu frá 1893. Þar sést vel hvernig skyndileg spenna eða ótti getur breytt allri okkar skynjun. Greinilegt er á verunni og umhverfinu að eitthvað hræðilegt hefur gerst. Umhverfið virðist taka þátt í angist verunnar sem æpir eins og sést á flæðandi línunum í kringum andlitið afskræmt af ótta.

Expressjónistarnir töldu miklu mikilvægara að túlka  myndefnið eins og þeir skynjuðu það út frá eigin tilfinningum en að myndefnið liti raunverulega eða fallega út.  Þeir notuðu því sterka liti og litfleti og bjagaðar, hlykkjóttar línur ef það hentaði myndefninu og þeim tilfinningum sem listamaðurinn vildi miðla til áhorfandans.

Munch og fleiri expressjónistar vildu takast á við þá staðreynd að lífið er ekki bara dans á rósum heldur einnig fullt af þjáningum, grimmd og fátækt. Mörgum  fannst það hræsni og óheiðarleiki að túlka aðeins það sem er fagurt og fágað. Þessi hugmyndafræði féll í frjóan jarðveg í Þýskalandi og þar þróaðist sérstakur angi af stefnunni sem kallast þýskur expressjónismi.

Innan þýska expressjónismans urðu til hópar þar sem listamenn hópuðu sig saman eftir því hvað þeir vildu leggja áherslu á í listsköpun sinni eða hvaðan þeir sóttu sér innblástur. Meðal þeirra eru Brúin (Die Brücke) og Blái Riddarinn (Der Blaue Reiter).

Ein af þeim stefnum sem eru afsprengi expressjónismans er abstrakt expressjónisminn en hann varð sérlega vinsæll í Bandaríkjunum eftir seinni heimstyrjöld (sjá nánar undir Abstrakt).

Tenglar:

LISTAMENN (í tímaröð):

Heimildir:

  • Gina Pischel og Þorsteinn Thorarensen. Listasaga Fjölva. (3ja bindi bls. 654-657). Reykjavík: Fjölvaútgáfan. (1977)
  • Gombrich, E.H.. (1997). Saga listarinnar (16. útgáfa), (Halldór Björn Runólfsson), (bls. 557-573). Reykjavík: Mál og menning. (1995).
  • Sonia Whillock-Moore og Pamela Shiels. (2009). Children’s Book of Art ( 1. útgáfa), (bls. 68-69). London: Dorling Kindersley Limited.