Súrrealismi

u.þ.b. 1920-1940

Á árunum milli heimstyrjaldanna fyrri og síðari (u.þ.b. 1920-1940) varð til bókmennta- og listastefna sem bar nafnið súrrealismi sem á íslensku mætti kalla ofurveruleiki þar sem orðið sur á frönsku þýðir fyrir ofan. Segja má að súrrealisminn hafi tekið við af dadaismanum sem varð til meðan á fyrri heimstyrjöldinni stóð.

Dali

The Persistence of Memory (1931) eftir Salvador Dalí. Mynd af Wikipedia.

Súrrealisminn varð formlega til í París árið1924 þegar rithöfundurinn og ljóðskáldið André Breton skrifaði stefnuskrá hreyfingarinnar. Súrrealistar vildu líkt og dadaistarnir  hrista upp í hugmyndum okkar en ekki bara um list heldur einnig um lífið sjálft, upplifanir okkar og skynjun. Þeir vildu gera uppreisn gegn ríkjandi hugsunarhætti. Þeir vildu „afmá mörkin milli draums og vöku, ímyndunar og veruleika, hlutlægs og huglægs og koma þannig á svonefndum „ofurveruleika“.“ (Kristján Árnason, vísindavefurinn http://visindavefur.is/?id=1616)

Til að ná fram þessum markmiðum sínum leituðu þeir meðal annars í kenningar Freuds um skiptingu hugans í meðvitund og undirmeðvitund. Samkvæmt kenningum Freuds áttu innstu tilfinningar okkar, hugsanir og langanir að liggja í undirmeðvitundinni. Súrrealistar töldu að hægt væri að nálgast hinar ósjálfráðu hugsanir t.d í gegnum drauma og  ósjálfráða teikningu (automation á ensku).

Dali-LobsterThe Lobster Telephone (1936) eftir Salvador Dalí. Mynd af vefnum Tate Collection.

Súrrealistar gerðu furðulegar myndir sem fá áhorfendur til að skoða hluti í nýju samhengi. Þeir voru hrifnir af tilviljanakenndri og óvæntri samsetningu hluta og fyrirbæra eins og þegar regnhlíf og saumavél hittust fyrir tilviljun á skurðarborðinu (lýsing skáldsins Lautréamont á fegurð).

Einn þekktasti súrrealistinn er Spánverjinn Savador Dalí. Í myndum hans kemur oft fram draumkennt landslag með undarlega samsettum hlutum s.s. bráðnandi úrum.

Hann setti einnig ólíklegustu hluti saman eins og þegar hann skellti stórum humri ofan á síma svo úr varð „ready-made“ verkið humarsíminn.  Ready-made er notað yfir listaverk unnin úr hlutum sem þegar eru til. Annað dæmi er gosbrunnurinn (pissuskálin) hans Duchamps.

MagritteThe Son of Man (1964) René Magritte. Mynd af Wikipedia.

Annar þekktur súrrealisti er Belginn René Magritte. Hann málar á mjög raunverulegan og raunsæjan hátt þannig að við fyrstu sýn sér maður ekki að myndefnið brýtur oftar en ekki gegn náttúrulögmálunum. Hann notar oft sama myndefnið s.s. mann í svörtum fötum með kúluhatt, bláan himinn, ský og grænt epli.

Magritte-PipeThe Treachery of Images eða Sviksemi mynda (1926) eftir René Magritte. Mynd af Wikipedia.

Eitt frægasta verk Magritte er þó líklega málverk af pípu og undir henni stendur „ceci n’est pas une pipe“ eða „þetta er ekki pípa“.

Tenglar:

LISTAMENN (í tímaröð):

Heimildir:

  • Gina Pischel og Þorsteinn Thorarensen. Listasaga Fjölva. (3ja bindi bls. 663-664). Reykjavík: Fjölvaútgáfan. (1977)
  • Gombrich, E.H.. (1997). Saga listarinnar (16. útgáfa), (Halldór Björn Runólfsson), (bls. 590-604). Reykjavík: Mál og menning. (1995).
  • Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?“. Vísindavefurinn 17.5.2001. http://visindavefur.is/?id=1616. (Skoðað 7.2.2010).
  • Rosie Dickins. (2005). The Usborne Book of Art, (bls. 122-123). London: Usborne Publishing (2005)