Popplist

u.þ.b. 1950-1970

Vintage-ad-2Mynd af Found in Mom´s Basement (síða tileinkuð gömlum auglýsingum).

Eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar urðu heilmiklar breytingar á lifnaðarháttum í hinum vestræna heimi. Fjöldaframleiðsla alls kyns neysluvarnings jókst og flestir gátu nú eignast hluti eins og ísskáp, þvottavél, plötuspilara, bíla og hvaðeina sem hugurinn girntist. En fólk keypti ekki aðeins fleiri hluti heldur horfði meira á sjónvarp, fór oftar í bíó, út að borða o.þ.h.. Skemmtanaiðnaðurinn blómstraði. Til varð svokölluð dægurmenning sem á ensku kallast popular culture (vinsæl menning) eða pop culture (stytting).

Vintage-ad-5Myndir af vefsíðunni Ultra Swank Retro Adventure.

Slík menning höfðaði til fjöldans ólíkt hinni hástemmdu list sem aðeins virtist ná til fárra útvaldra og auðugra. Að auki varð til nýr markaður neytenda en það voru unglingar. Miðlar eins og sjónvarp fylltust af auglýsingum um það sem unga fólkið varð að eignast til að öðlast vinsældir.

Hamilton

Just What Is It That Makes Today’s Homes So Different, So Appealing?“ eftir Richard Hamilton. Mynd af – listasögusíðu á vef JB DUBS.

Í London voru nokkrir listamenn í kringum 1950 sem ofbauð þessi vægðarlausa neysluhyggja. Einn þeirra var Richard Hamilton. Gagnrýni hans á neyslusamfélagið kemur vel fram á klippimynd hans “„Just What Is It That Makes Today’s Homes So Different, So Appealing?“ (Hvað er það eiginlega sem gerir nútímaheimilin svona öðruvísi, svona aðlaðandi?)

Lichtenstein

Whaam! (1963) eftir Roy Lichtenstein. Mynd af Victoria Art School Elective Programme.

Upp úr 1960 í New York voru Andy Warhol, Roy Lichtenstein og fleiri listamenn að hugsa og vinna á svipuðum nótum. Verk þeirra gerðu skilin ógreinileg á milli hálistar (Fine Art) og grafískrar hönnunar og auglýsingateikningar. List þeirra var nútímaleg og þeir notuðu djarfa, skæra liti, myndmál sem allir þekktu og skildu, ekki ósvipað og gert er í auglýsingum og auglýsingaskiltum.

Roy Lichtenstein málaði risastórar myndir sem þöktu heila veggi. Myndefnið var fengið úr teiknimyndabókum sem voru (og eru enn) mjög vinsælar meðal unga fólksins. Fyrir tíma stafrænnar prentunar voru prentaðar myndir samsettar úr litlum litapunktum. Lichtenstein málaði alla þessa litlu punkta á málverkin sín til að gera þau sem líkust myndunum í teiknimyndabókunum.

Warhol-Monroe

Marilyn Set eftir Andy Warhol. Mynd af vef Joseph K. Levene Fine Art, Ltd.

Andy Warhol er vafalaust þekktasti popplistamaðurinn. Hann vann lengi við auglýsingateiknun og gluggaútstillingar en sneri sér síðan að eigin listsköpun. Hann var heillaður af frægðinni og sagði eitt sinn að „í framtíðinni munu allir verða frægir í 15 mínútur“. Mörg verk hans fjalla um frægðina og hverfulleika hennar. Fræg er myndasería hans af Marilyn Monroe sem hann gerði stuttu eftir dauða hennar. Hann notaði (án leyfis) fræga ljósmynd af henni og gerði meira en 20 stórar silkiþrykkmyndir þar sem hann litaði andlit hennar í skærum litum og voru engar tvær þeirra eins. Marilyn var holdgervingur frægðar og fegurðar en á myndum Warhol virðist hún enn ósnertanlegri og fjarlægari. Hann gerði svipuð portrett af mörgu frægu fólki s.s. Elvis Presley, Elizabeth Taylor og Mick Jagger.

Warhol-Coca-Cola

Coca Cola flöskur eftir Andy Warhol. Mynd af Andy Warhol Posters and Prints.

Önnur fræg verk eftir Warhol er t.d. silkiþrykkmyndir hans af Campbell súpudósum og Coca Cola flöskum.

Warhol-CampbellWarhol kallaði vinnustofu sína The Factory eða verksmiðjuna til að undirstrika að hann fjöldaframleiddi myndir sínar. En ólíkt fjöldaframleiðslu, þar sem mannleg hönd kemur sjaldnast nærri, eru öll verk Warhol unnin í höndum.

Campbell’s Tomato Soup eftir
Andy Warhol. Mynd á ArtLex.

Helstu einkenni Popplistarinnar:

1. Nýtir algengar myndir úr dægurmenningunni í list sinni eins og:

 • Auglýsingar
 • Neysluvörur
 • Frægt fólk
 • Ljósmyndir
 • Teiknimyndir (myndaseríur, bækur o.fl.)

2. Notar djarfa, flata liti, skýrar útlínur o.fl. sem notað var í auglýsingum eins og:

 • Á auglýsingaskiltum
 • Í veggauglýsingum
 • Í glanstímaritum
 • Í dagblöðum

3. Speglar menningu 7. og 8. áratugarins með því að nota nýuppfundin efni og tækni eins og:

 • Akrílmálningu
 • Plast og plastefni
 • Ljósmyndir og ljósmyndatækni
 • Sjálflýsandi liti og málmliti
 • Fjöldaframleiðslu
 • Prenttækni (t.d. silkiprentun eftir ljósmyndum)

4. Býður upp á marga möguleika í listsköpun eins og:

 • Endurtekningu (fjölföldun)
 • Gera margar útgáfur af sama verkinu (seríur)
 • Samvinnu við aðra listamenn
 • Uppákomur, viðburði, gjörninga o.fl.

Tenglar:

LISTAMENN (í tímaröð):

ÍSLENSKIR LISTAMENN: