Forsöguleg list

– u.þ.b. 33000-10000 f.Kr.

HellamálverkHellamálverk af hesti í Lascaux hellunum í Frakklandi. Málað 15.000 – 10.000. f.Kr. Mynd af Wikimedia Commons.

Elstu minjar um listsköpun eru taldar vera frá því um 33 þúsund árum síðan þegar nútímamaðurinn Homo Sapiens Sapiens var kominn fram og tekinn við af Neanderdalsmanninum. Á þessum tímum stóð yfir ísöld sem lauk um 10.000 f.Kr..  Þá huldi jökulbreiða allt norðurhvel jarðar.  Íbúar Evrópu voru veiðimenn sem veiddu m.a. mammúta, vísunda, hreindýr og fisk.  Þetta tímabil er einnig kallað forn-steinöld því þá notuðu menn áhöld úr steini.

Frá þessum tíma hafa fundist litlar styttur, lágmyndir og hellamálverk. Stytturnar eru úr mammútstönnum, kalksteini eða hreindýrshornum og lágmyndirnar úr óbrenndum leir eða kalksteini.  Myndefnið á hellaveggjunum eru dýr (bráðir) og stundum líka myndir af veiðimönnunum.

Talið er að hellamyndirnar og stytturnar hafi verið búnar til í vissum tilgangi. Fundist hafa litlar styttur af þéttvöxnum konum (venusarstyttur) sem taldar eru frjósemistákn og að þær hafi verið notaðar við trúarathafnir.  Vitað er að hellarnir þar sem myndirnar fundust eru ekki heppilegir mannabústaðir og að menn bjuggu ekki í þeim. Sennilegra er að þar hafi farið fram trúarlegar athafnir og að fólkið hafi trúað að myndirnar hefðu töframátt. Með því að búa til mynd af væntanlegri bráð (dýri) og sýna hana særða með spjóti eða öxi myndu veiðimennirnir fá vald yfir dýrinu og þannig eiga auðveldara með að veiða það.

Hvernig og með hverju voru hellamyndirnar gerðar? Menn notuðu alls konar jarðefni s.s. kol, leir, krít o.fl. og fengu svart, rautt, brúnt og gult litarefni. Þeir blönduðu litarefnunum saman við fitu úr dýrum.  Liturinn var borinn á veggina með fingrunum eða tuggðri trjágrein eða þeir fylltu munninn af lit og spýttu á veggina,  stundum í gegnum holt leggbein.

Tenglar:

Heimildir:

  • Aðalbjörg María Ólafsdóttir. (2001). Hellamálverk. Myndlistavefur. http://www.akmennt.is/adda/khi-nam/namogkenn/listavefur/hellamalverk.htm
  • Bailly, Jean-Christophe. (1993). Að skoða málverk: 100 meistaraverk listasögunnar, (Sigurður Pálsson), (1. Lascaux). Reykjavík: Mál og mennig. (1992)
  • Gombrich, E.H.. (1997). Saga listarinnar (16. útgáfa), (Halldór Björn Runólfsson), (bls. 39-43). Reykjavík: Mál og menning. (1995).
  • Myndlist í þrjátíuþúsund ár, (2008), (bls. 4-16). Reykjavík: Bókaútgáfan Opna. (2007 Phaidon Press Limided)