Lýsing
Ígulker eru með sérkennilegri dýrum. Þau eru skrápdýr eins og krossfiskar og slöngustjörnur. Flest ígulker eru kúlu- eða boltalaga og er líkaminn umlukinn harðri skel sem gjarnan er þakinn fjölda hvassra brodda. Ígulkerið getur hreyft broddana til og nýtir þá ásamt sogfótum sem koma í gegnum skelina til að færa sig um set. Á sumum tegundum verða þessir broddar ansi langir. Neðst á skelinni er að finna munnop. Hérlendis eru tvær algengar tegundir á grunnsævi, marígull, sem er fjólublár að lit og getur orðið 8 cm í þvermál, og skollakoppur sem er grænn eða brúnn og getur orðið 6 cm í þvermál.
Búsvæði
Ígulker eru algeng á grunnsævi, einkum þar sem þari og aðrir þörungar vaxa. Í fjörum er þau helst að finna í pollum og neðst við flæðarmálið.
Fæða
Ígulker eru jurtaætur og lifa einkum á þörungum. Ef ígulkerjum fjölgar um of geta þau étið þörungagróður í búsvæðinu nær upp til agna sem hefur mjög raskandi áhrif á allt vistkerfið.